Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Listasýningar á dekkjaverkstæðum

Mynd: Halla Ólafsdóttir / RÚV

Listasýningar á dekkjaverkstæðum

29.09.2020 - 14:20

Höfundar

Listasafn ASÍ leitar að myndlistarfólki til að halda sýningar á dekkjaverkstæðum. Hugmyndin kemur frá lögfræðingum og hagfræðingum ASÍ og er ætlað að auka umræður um myndlist á meðal almennings.

ASÍ heldur reglulega sýningar á vinnustöðum en þó aðallega fínum skrifstofum og fundarherbergjum. Elísabet Gunnarsdóttir, safnstjóri Listasafns ASÍ, segir að nú vilji safnið færa sýningarnar út í þjóðfélagið og á staði þar sem er hávaði og meira um að vera. „Þetta er hugmynd sem kemur frá starfsmönnum ASÍ, starfsmönnum lögfræði- og hagfræðideildar, menn af yngri kynslóðinni sem buðu sig fram í listráð hjá safninu og var ekkert sérstaklega vel tekið í upphafi, þeir eru náttúrulega bara lögfræðingar og hagfræðingar og engir sérfræðingar í myndlist,” segir Elísabet.

Eftir að þeir kynntu hugmynd sína breyttist viðhorfið þó, Elísabet segir að þetta sé skemmtileg tilraun til að skapa vettvang þar sem alls konar fólk getur rætt samtímalist. Verkstæðin ákveða sjálf í samráði við myndlistarfólkið hvar og hvernig verkin verða kynnt og kemur það í hlut myndlistarfólksins að hafa beint samband við verkstæði og óska eftir þátttöku í verkefninu. 

„Það vantar meiri umræðu um myndlist og ég held að alltof margir séu hálfhræddir við hana, að þetta sé lokaður heimur fyrir marga þannig að það er full ástæða til að finna fleiri leiðir til að gefa fólki aðgang að þessu og heyra hvað það hefur að segja, fá viðbrögðin og upplifuninna og lýsingu á hvernig það upplifir listina,” segir Elísabet. 

Verkefnið verður nokkuð smátt í sniðum til að byrja með og verða sýningar settar upp á þremur verkstæðum. Gangi það vel er ekki útilokað að fleiri verkstæðum bjóðist að vera með. 

Rætt var við Elísabet Gunnarsdóttur í Morgunútvarpinu á Rás 2.