Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Kosið um verkfall í álverinu í Straumsvík

Mynd með færslu
 Mynd: Anton Brink - Ruv.is
Félagsmenn í fimm stéttarfélögum sem starfa hjá álveri Rio Tinto í Straumsvík undirbúa nú aðgerðir til að knýja á um gerð kjarasamninga. Könnun var gerð meðal félagsmanna í stéttarfélögunum, yfirgnæfandi meirihluti styður aðgerðir, kosið verður um þær á næstu dögum og áformað er að þær hefjist 16. október.

Félögin fimm eru Hlíf, Félag vélstjóra og málmtæknimanna, Rafiðnaðarsambandið fyrir hönd Félags íslenskra rafvirkja, Félag iðn- og tæknigreina og VR.  Samningar félaganna hafa verið lausir síðan 1. júlí, en samið hafði verið um 24.000 króna launahækkun í mars með þeim fyrirvara að Rio Tinto næði nýjum raforkusamningum við Landsvirkjun fyrir lok júní. 

Þegar þeir samningar náðust ekki féll kjarasamningurinn úr gildi 1. júlí. Síðan þá hefur enginn árangur náðst í kjaraviðræðum og vísuðu félögin fimm deilunni til ríkissáttasemjara í ágúst. Þar hefur verið fundað fjórum sinnum, síðast 16. september og næsti fundur hefur verið boðaður á morgun.

Kolbeinn Gunnarsson, formaður Hlífar, segir að á fundunum hafi verið lögð fram tilboð sem samninganefndirnar hafi ekki verið sáttar við. „Við ákváðum því að leita til félagsmanna um hvað þeir vildu gera og niðurstaðan liggur núna fyrir. Yfirgnæfandi meirihluti þeirra vill fara út í aðgerðir,“ segir Kolbeinn. „Nú erum við að undirbúa atkvæðagreiðslu um aðgerðir, hún hefst á föstudaginn og henni lýkur miðvikudaginn 7. október.“

Hann segir að þar verði kosið um skæruverkföll sem verði þannig að tilteknar starfsstéttir álversins leggi niður störf einstaka daga á dagvinnutíma. Fyrsti dagurinn verði 16. október, lögð verði niður störf nokkra daga í viku og hafi samningar ekki náðst 1. desember hefst ótímabundið allsherjarverkfall allra starfsmanna álversins.

Kolbeinn segist vonast til að ekki komi til þess og að samningar muni nást fyrir þann tíma. „Við viljum gera samning á grundvelli Lífskjarasamningsins sem myndi gilda til 2023. Okkur hefur ekki boðist slíkur samningur enn sem komið er.“

Hann segir ljóst að samstaða sé meðal félagsmanna, en 90% af félagsmönnum Hlífar sem starfa í álverinu, vilja grípa til aðgerða. „Fólk er orðið langþreytt á að vera alltaf að slást um það sama,“ segir Kolbeinn.