Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Hafnar því að SA hafi haft í hótunum við ASÍ 

Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, hafnar því að samtökin hafi haft í hótunum við verkalýðshreyfinguna. „Við reyndum að ná fram samtali til að bregðast við þeirri stöðu sem upp var komin í efnahagslífinu. Og flestir virðast sjá að hér séu allar forsendur breyttar,“ segir hann í viðtali við Einar Þorsteinsson í Kastljósi kvöldsins.  

Aðspurður hvað það sé annað en hótun þegar samtökin hóta því að rifta samningi sem svo mikil vinna hafi verið lögð í segir Halldór að samtökin hafi reynt að knýja á um samtal við verkalýðshreyfinguna til þess að bregðast við. „Það þýðir ekkert í þessu ástandi að stinga höfðinu í sandinn heldur verðum við að bregðast við. Vegna þess að ef við gerum ekki neitt þá verður niðurstaðan verri en ef við náum að framkalla eitthvað sameiginlegt viðbragð. Og ég er mjög ánægður með það að þetta samtal tókst að þróa með stjórnvöldum, og ég tel að þeirra ákvörðun hafi verið rétt. Að þróa sameiginlegt viðbragð með Samtökum atvinnulífsins til þess að kjarasamningurinn haldi gildi sínu,“ segir Halldór. 

Ekki bjartir tímar framundan 

Halldór segir að þrátt fyrir þessa niðurstöðu séu ekki bjartir tímar framundan. „Atvinnuleysi mun halda áfram að aukast frá mánuði til mánaðar og mín skoðun er sú að atvinnuleysi sé algjört eitur í beinum Íslendinga. Viðbragð verkalýðshreyfingarinnar síðustu 20 ár hefur alltaf verið að ná saman við atvinnurekendur í kreppu eins og ríkir nú, til að milda áhrifin af atvinnuleysi og tryggja sem flestum vinnu,“ segir hann. 

Aðspurður hvort það hafi komið honum á óvart að verkalýðshreyfingin skyldi ekki vilja fresta launahækkunum segir Halldór að honum hafi komið á óvart að það hafi ekki verið vilji til að ræða útfærslur: „Svarið var einfaldlega „nei“ við því að fara inn í samtalið. Ég tel að það hafi verið mjög ósanngjörn afstaða. Og ég held að sagan muni dæma þessa nálgun þeirra, ekki vel.“  

„Tekist á á mörgum vígstöðum“ 

Samtök atvinnulífsins og Alþýðusamband Íslands stóðu í hörðum deilum í sumar í kjölfar þess að SA studdi Icelandair í þvi að segja upp öllum flugfreyjum félagsins í miðjum kjaraviðræðum og snúa sér til annarra viðsemjenda.

Aðspurður hvort þær deilur kunni að hafa haft áhrif á samtalið síðustu daga segist Halldór sammála því að samtalið milli SA og ASÍ sé ekki gott. „Það verður að vera samtal þarna á milli og það er það sem við freistuðum þess að prófa núna,“ segir hann.  

Aðspurður hvers vegna SA berjist sérstaklega gegn einu helsta baráttumáli verkalýðshreyfingarinnar, því að hækka atvinnuleysisbætur, í ljósi þess hversu mikilvægt það er að halda góðu talsambandi milli hreyfinganna, segir Halldór að það sé tekist á á mörgum vígstöðum.

„En aðalatriðið er það að það þarf að bregðast við,“ segir hann. „Og allar aðgerðir okkar hafa miðað að því að ná fram samtali, en svarið sem við fengum var þetta: Þá förum við í víðtækar verkfallsaðgerðir,“ bætir hann við. 

Innspýting stjórnvalda mildar brekkuna 

Halldór segir útspil stjórnvalda milda brekkuna fyrir atvinnulífið til að efna launahækkanir. „En á sama tíma hef ég ekkert farið í grafgötur með það að fjöldi fyrirtækja mun ekki geta risið undir þessum launahækkunum, því miður. Því þegar illa árar í efnahagslífinu, eins og sannarlega gerir núna, þá erum við ekki að fara að auka kaupmátt fólks,“ segir hann.  

Aðspurður hvernig fyrirtæki, sem nú hafa fengið margra milljarða stuðning úr ríkissjóði, muni bregðast við þegar að því kemur að fjármagna ríkissjóð á ný með hækkun skatta og gjalda segist Halldór gera ráð fyrir því að ríkisstjórnin sjái að fyrirtækin þurfi að vera starfhæf til að geta skilað tekjum í ríkissjóð. „Það er fyrst og fremst markmið þeirra aðgerða sem ríkisstjórnin er að kynna,“ segir hann. „En það er mikilvægt að við tökum réttar ákvarðanir á meðan við erum í dýpstu kreppu í hundrað ár.“