Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Greiða má þeim umönnunarbætur sem annast aldraða maka

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Greiða má mökum þeirra ellilífeyrisþega, sem þurfa að aðstoð við daglegar athafnir, sérstakar makabætur þurfi þau að draga úr eða hætta vinnu. Þær bætur geta numið allt að 80% af fullum örorkulífeyri og tekjutryggingu.

Þetta kemur fram í skýrslu félags- og barnamálaráðherra sem gerð var að beiðni Ágústs Ólafs Ágústssonar og fleiri þingmanna. Sömuleiðis má greiða öðrum sem halda heimili með ellilífeyrisþega umönnunarbætur við tilteknar aðstæður.

Slíkar bætur eru því hugsaðar þeim til handa sem annast maka sinn eða annað fólk á sama lögheimili til að mæta tekjumissi. Sýna þarf fram á með gögnum að svo sé ástatt. Réttur til maka- eða umönnunarbóta fellur niður fái umsækjandi greiddar lífeyrisgreiðslur.

Fólk telst vera eldri borgarar á Íslandi við 67 ára aldur en víða í Evrópu er miðað við 65 ár. Sá aldur er sömuleiðis viðmið Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar fyrir þróuð hagkerfi.

Ætlast er til að sá eða sú sem þarfnast umönnunarinnar fái greiðslur frá Tryggingastofnun á borð við elli-, örorku- eða endurhæfingarlífeyri. Bætur falla alveg niður fari tekjur umsækjanda yfir sömu tekjumörk og gilda um stöðvun ellilífeyris samkvæmt lögum um almannatryggingar.

Í skýrslunni segir að í Evrópu sé algengt að fjallað sé um málefni af þessu tagi á víð og dreif um löggjöf landa. Sjaldgæft sé að sértæk löggjöf fjalli um greiðslur vegna umönnunar eldri borgara en oft fjalli upplýsingaefni um umönnun fatlaðra, fullorðinna eða barna.

Víða er kveðið á um að aldraðir fái viðbót við ellilífeyri, eða þau sem annist þá fái sérstakar fégreiðslur vegna þess, oftast frá sveitarfélögum. Þar þekkist að sérstakur starfssamningur sé gerður við nákomna sem annast um ellilífeyrisþega.

Þar sem slíkt fyrirkomulag þekkist ekki veita vinnuveitendur launað eða ólaunað leyfi frá störfum. Sömuleiðis greiðir ríkisvaldið sums staðar lífeyrisiðgjöld þess fólks.

Hæstar umönnunarbætur eru greiddar í Noregi en í Þýskalandi, Austurríki og Hollandi er til eða verið að koma á sérstökum tryggingaflokki til að mæta þörf fyrir umönnun ellilífeyrisþega. 

Gangi mannfjöldaspár eftir verður fimmtungur Íslendinga 65 ára og eldri árið 2035 og tuttugu árum síðar verður hlutfallið komið yfir 25 af hundraði. Frá árinu 2046 er áætlað að þau sem eru 65 ára og eldri verði fleiri en þau sem undir 19 ára að aldri.