Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Fjöldi smita verði 800 til 1.100 eftir þrjár vikur

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Gera má ráð fyrir að fjöldi þeirra sem hafa greinst með kórónuveirusmit í þriðju bylgju faraldursins verði 800 til 1.100 eftir þrjár vikur samkvæmt uppfærðu spálíkani Háskóla Íslands. Þau gætu þó orðið allt að 1.650. Nú eru 525 í einangrun. Núverandi smitstuðull utan sóttkvíar er 1 sem þýðir að hver sýktur smitar einn í kringum sig en smitstuðullinn metur smithraðann í samfélaginu hverju sinni.

Spálíkanið var uppfært í dag. 

Þar er því spáð að nýgreindum smitum fari hægt fækkandi. Á næstu dögum greinist á bilinu 20 til 40 með smit en geti þó mest orðið 70 þótt á því séu taldar minni líkur. Eftir þrjár vikur sé líklegt að ný smit verði á milli 10 til 30 en gætu orðið 60.  Uppsafnaður fjöldi nú er 506 smit en eftir þrjár vikur verða þau líklega 800 til 1.100 en gætu orðið 1.650.

Í spálíkaninu er einnig fjallað um smitstuðulinn sem hefur verið notaður talsvert erlendis en minna hér. Smitstuðull segir hvað einstaklingur sem sýkist smitar að jafnaði marga aðra. Hann fór hæst í 6 í þriðju bylgjunni sem má að einhverju leyti rekja til „ofurdreifara“ á tveimur skemmtistöðum í Reykjavík.  Í dag er smitstuðullinn 1 og er markmiðið að fá hann undir þá tölu.

Fram kemur á vef spálíkansins að smitstuðullinn sé undir einum ef fólk er í sóttkví og það bendi til þess að sóttkvíin sé mjög öflug sóttvarnaaðgerð. Ekki er að finna neina spá um fjölda spítalainnlagna en hún verður birt bráðlega. 

Alls greindust 32 með innanlandssmit í gær. Sex eru nú á sjúkrahúsi, þar af tveir á gjörgæslu. Nýgengi smita er nú komið í 135,3 smit á hverja hundrað þúsund íbúa síðustu tvær vikur og er hvergi hærra á Norðurlöndum.

 

 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV