Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

„Eina skynsama niðurstaðan“

Mynd með færslu
Drífa Snædal, forseti ASÍ Mynd: ASÍ
Samtök atvinnulífsins hafa valdið óþarfa óöryggi og usla meðal fólks með því að draga gildi Lífskjarasamninganna í efa. Þetta segir Drífa Snædal, forseti ASÍ. Hún segir þörf á aðgerðum á vinnumarkaði, óháð því að samtökin hafi hætt við boðaða atkvæðagreiðslu aðildarfyrirtækja sinna um Lífskjarasamninginn sem átti að hefjast í dag.

„Það kom mér á óvart að þeir myndu hætta við atkvæðagreiðsluna. En þessi niðurstaða í sjálfu sér kemur ekki á óvart. Enda eina skynsama niðurstaðan sem hægt er að komast að,“ segir Drífa. „Nóg er nú samt þó að við séum ekki með upplausn á vinnumarkaði og reyndar þessi vegferð, sem SA hefur verið í, hefur valdið töluverðri upplausn og óöryggi og ófyrirsjáanleika sem við höfum unnið að öllum árum að binda enda á.“

Hún segist binda vonir við að þessi niðurstaða verði til þess að friður ríki á vinnumarkaði. Brýnt sé að tryggja afkomuöryggi fólks. 

„Við þurfum að styðja við fólk sem er atvinnulaust og við þurfum að sjálfsögðu að halda áfram að vinna eftir Lífskjarasamningnum og þeim úrlausnarefnum sem eru eftir þar.Verkefnin eru ekkert að fara frá okkur, það er ennþá alvarleg staða vegna COVID-ástandsins. Það þarf ennþá að grípa til einhverra sértækra aðgerða til þess að tryggja afkomu fólks. Það er verkefni sem fer ekkert frá okkur, óháð kjarasamningum.“

Eru Lífskjarasamningarnir tryggðir núna? „Þeir halda. Fram að næstu endurskoðun allavegana sem er í september á næsta ári.“