Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Búist við hörðum kappræðum

Mynd: EPA-EFE / EPA
Fyrstu kappræður forsetaframbjóðenda Bandaríkjanna, Donald Trump og Joe Biden, fara fram í kvöld. Búist er við að hart verði tekist á, enda hefur kosningabaráttan hingað til verið með þeim illskeyttari á síðari árum.

Margir bíða eftir fyrstu kappræðunum fyrir forsetakosningarnar í Bandaríkjunum með mikilli eftirvæntingu - ekki síst vegna þeirra stóryrða sem hafa fallið á báða bóga. Sem dæmi hefur Trump sakað Biden og son hans um spillingu tengda Úkraínu og hefur gert grín að honum fyrir að bera grímu á meðan Biden segir Trump bera ábyrgð á dauða fjölda Bandaríkjamanna vegna slakra viðbragða sinna við Covid nítján faraldrinum.

Líkur eru á að skattamál Trumps beri á góma eftir að úttekt New York Times sýndi að hann hefði ekki greitt tekjuskatt í tíu af síðustu fimmtán árum. Þá ber þó að hafa í huga að fyrir aðrar umræðurnar 2016 hafði birst upptaka af Trump tala niðrandi um konur - nokkuð sem virtist ekki bíta á hann í þeim kappræðum. Þar lét hann meðal annars þau orð falla þegar Hillary Clinton mótframbjóðandi hans sagðist fegin að maður á borð við hann stýrði ekki lögum í landinu að þá væri hún í fangelsi.

Fréttaskýrendur búast við að skeytasendingarnar nú verði engu minni. Biden muni nýta sér skattamálin og nýja skipan hæstaréttardómara en Trump horfa annað. Jonathan Lemire fréttamaður Associated Press nefndi sem dæmi að hann hefði ítrekað sagt að Biden myndi ekki ráða við embættið. „Við getum búist við býsna persónulegum og hugsanlega illskeyttum árásum á Biden-fjölskylduna, einkum Hunter Biden, vegna ásakana sem enn hafa að stórum hluta verið ósannaðar um fjármálamisferli, hvort sem það er í Úkraínu, Kína eða annars staðar.“

Kappræðurnar verða í sex hlutum. Fyrst verður rætt um feril þeirra beggja, þá Hæstarétt, síðan kórónuveirufaraldurinn, þá mótmæli gegn kynþáttahatri, því næst heiðarleika í kosningum og að lokum efnahagsmál. Kappræðurnar hefjast í Ohio klukkan eitt í nótt að íslenskum tíma og verða sendar beint á RÚV og rúv.is.

 

 

 

hallgrimur's picture
Hallgrímur Indriðason
Fréttastofa RÚV