Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Aðgerðirnar styðji aðeins atvinnurekendur og efnafólk

29.09.2020 - 14:33
Mynd með færslu
 Mynd: Guðmundur Bergkvist - RÚV
Í yfirlýsingu sem Efling – stéttarfélag sendi frá sér í dag lýsir félagið vonbrigðum yfir nýkynntri aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar. Þar segir að þrátt fyrir að aðgerðirnar séu sagðar „til stuðnings lífskjarasamningunum“ styðji þær eingöngu atvinnurekendur og efnafólk, láti undan óeðlilegum þrýstingi þeirra og hlunnfari vinnandi fólk.

Efling segir ríkisstjórnina hafa látið Samtök atvinnulífsins beita sig innistæðulausri hótun um uppsögn kjarasamninga: „Í stað þess að halda sjálfsvirðingu sinni og verja hagsmuni almennings lætur ríkisstjórnin neyða sig til að ausa enn meira fé úr sjóðum hins opinbera til efnafólks og stöndugra fyrirtækja.“

Félagið gagnrýnir sérstaklega að í aðgerðaáætluninni sé ekki minnst á loforð sem stjórnvöld hafi gefið í tengslum við lífskjarasamninginn um „févíti vegna launaþjófnaðar“: „Þau frumvarpsdrög sem Efling hefur séð um efnið eru gagnslaus. Svo virðist sem ríkisstjórnin hyggist láta þjóðarskömm íslensks vinnumarkaðar, refsilausan launaþjófnað atvinnurekenda, viðgangast til frambúðar,“ segir í yfirlýsingunni. 

Þá segir að í aðgerðapakkanum sé hvergi komið til móts við tillögur verkalýðshreyfingarinnar um það hvernig hið opinbera geti beitt sér á krepputímum í þágu almennings og vinnandi fólks: „Dæmi um það er hækkun grunnatvinnuleysisbóta, sem ekki er minnst orði á í aðgerðapakkanum.“

Í yfirlýsingunni kemur fram að félagið harmi að sjá ríkisstjórnina vinna gegn réttlátara skattkerfi: „Nýtt loforð ríkisstjórnarinnar um skattaafslátt til stórefnafólks sem stendur í hlutabréfakaupum vekur algjöra furðu. Sú aðgerð gengur þvert á markmið skattkerfisbreytinga sem lofað var í tengslum við lífskjarasamningana. Þeim breytingum var ætlað að leiðrétta „stóru skattatilfærslu“ síðustu áratuga frá hálauna- og stóreignafólki yfir á herðar láglaunafólks.“