Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

700 milljónir til rannsóknar á íslensku grasi og skógum

Mynd með færslu
 Mynd: LBHÍ - Aðsend
700 milljóna króna styrkur til fjögurra ára var veittur til rannsóknarverkefnis sem Landbúnaðarháskóli Íslands tekur þátt í. Verkefnið heitir Future Arctic og á að gefa innsýn í hvernig graslendi og skógar bregðast við loftslagsbreytingum.

Fjárveitingin kemur frá Evrópusambandinu. Að rannsóknarverkefninu kemur 51 vísindamaður. Þar af sjö nýdoktorar, 22 doktorsnemar og þrír meistaranemar frá 31 stofnun og háskólum frá fimmtán löndum. Einnig koma sex einkarekin fyrirtæki að verkefninu.

Rannsóknin fer fram á Reykjum á Ölfusi. Skoða á hvernig íslenskt graslendi og skógar bregðast við breytingum í loftslagi og loftgæðum. Ástæða þess að verkefnið er unnið hér er að eftir Suðurlandsskjálftann 2009 röskuðust jarðhitakerfi á um fjögurra kílómetra löngu svæði á Reykjum. Þá tók berggrunnur undir áður köldum svæðum að hitna.

Bjarni Diðrik Sigurðsson er prófessor í skógfræði við LBHÍ og einn umsjónarmanna verkefnisins.

„Við erum að nýta þessi nýju heitu svæði, sem núna eru búin að vera heit í tólf ár, og skoða hvaða áhrif þessi hlýnun hefur á náttúruna. Þá er það þannig að þessi nýju svæði eru bæði undir graslendum og undir ræktuðum skóg.“

Bjarni segir að við skjálftann hafi jarðvegurinn hlýnað um allt að fjörutíu gráðum. „Við getum sagt að svartsýnustu spár um loftslagsbreytingar á heimskautasvæðinu sem um átta gráður. Þannig við erum að spanna allt þetta svið sem gæti gerst hér á norðurslóðum við lok þessarar aldar.“

Hann segir að um tuttugu álíka rannsóknir séu í gangi í heiminum, en engin af sömu stærðargráðu og hér. Hann segir þá viðbúið að fleiri verkefni taki við að þessum fjórum árum liðnum.

Mynd af doktorsnemanum Ruth Phoebe Tchana Wandji sem starfar í Landbúnaðarháskólanum og er á Reykjum. Hún er að rannsaka hvernig graslendi og skógar bregðast við loftslagsbreytingum.
Doktorsneminn Ruth Phoebe Tchana Wandji við rannsóknir