Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

11 ára börn verða fyrir kynferðislegri áreitni á netinu

Mynd: Instagram / Instagram
Kynferðisleg áreitni, sem börn verða fyrir á netinu, er mun algengari en flestir gera sér grein fyrir. Þetta segja börn sem unnu skýrslu um stöðu mannréttinda barna á Íslandi. Þau segja mikilvægt að auka fræðslu, bæði fyrir þolendur og gerendur.

Barnaskýrsla um stöðu mannréttinda á Íslandi var kynnt fyrir Barnaréttarnefnd Sameinuðu þjóðanna í dag. Skýrslan er unnin af börnum víðs vegar af landinu. Þau ræddu við á annað hundrað barna við gerð hennar. 
Börnin kusu að taka fyrir geðheilbrigðismál, stöðu fatlaðra barna, hinsegin barna og barna af erlendum uppruna, samskipti barna við lögreglu, aðgengi að eiturlyfjum og sömuleiðis kynferðislegt ofbeldi og ofbeldi á netinu.

Krakkar á miðstigi fá óviðeigandi myndir gegnum netið

„Það sem hefur verið mest áberandi hefur verið kynferðisleg áreitni á netinu og hversu ung þau fórnarlömb eru, en við vorum að sjá krakka allt niður í miðstig sem voru að fá óviðeigandi myndir eða kynferðislega áreitni í gegnum netið,“ segir Jökull Ingi Þorvaldsson, einn ritstjóra skýrslunnar.

Undir þetta tekur Bryndís Ýr Sigurþórsdóttir, einn höfunda skýrslunnar. „Þetta er mjög algengt. Ég held að fullorðið fólk geri sér ekki beint grein fyrir því, en krakkar á mínum aldri og yngri, það er bara mjög mikið, sérsaklega af svona áreitni á netinu.“

Fær dæmisögur og skjáskot daglega

Sólborg Guðbrandsdóttir heldur úti Instagram-síðunni Fávitar, þar sem hún bendir á kynferðislega áreitni og ofbeldi á netinu. Daglega fær hún send skilaboð og skjáskot frá börnum sem verða fyrir slíku en vita ekki hvert þau eiga að leita. 

„Þau sem ég fæ send til mín sem eru að gerast á netinu eru alls konar óumbeðnar kynferðislýsingar, kynfæramyndir, hótanir um dreifingu nektarmynda og hótanir um nauðgun og annars konar kynferðisofbeldi,“ segir Sólborg Guðbrandsdóttir. Einnig séu dæmi um kynferðisofbeldi og annars konar ofbeldi í daglegu lífi barnanna.

„Ég er búin að vera í þessari vinnu í fimm ár og ég held að þessar sögur nemi nokkrum þúsundum núna,“ segir Sólrún. „Yngsta barnið sem hefur sent á mig er ellefu ára.“

Vantar fræðslu og leiðbeiningar

Bryndís Ýr segir mikilvægt að auka fræðslu og aðgengi að upplýsingum um hvað sé hægt að gera og hvert sé hægt að leita, ef börn verða fyrir slíku ofbeldi. „Fólk sem ég þekki hefur lent í þessu og það veit ekkert hvað það á að gera, og eiginlega það besta sem þú getur gert er að blokka einhvern á samfélagsmiðlum,“ segir Bryndís Ýr. „Við vitum ekki mikið meira um hvernig við getum komið fram og hvað gerist eftir það. Þannig að mér finnst vanta að vita hvað á að gera.“ Gerendur þurfi líka fræðslu og aðstoð. Krakkarnir kalla einnig eftir aukinni kynfræðslu.

„Það er alls ekki gert nóg til að taka á þessu. Börnin sem við töluðum við höfðu enga trú á að það væri lausn innan dómskerfisins,“ segir Einar Hrafn Árnason, einn ritstjóra skýrslunnar.
 
„Ég held að það einmitt að þau séu að leita til mín sýni skýrt það að þeim vantar einhvern stað til að leita til. Kerfið okkar þarf að passa þau öll og eins og staðan er því miður þá virðist það svo að það er ekki að gera það,“ segir Sólborg.

Mynd með færslu
 Mynd: Instagram
Skjáskot af skilaboðum til 14 ára stúlku