Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Um þúsund jarðskjálftar í síðustu viku

Mynd með færslu
 Mynd: rúv
Mælar Veðurstofu Íslands greindu um 1.000 jarðskjálfta í síðustu viku. Það er talsvert færra en í vikunni á undan þegar þeir voru um 1.500. Mesta virknin var norðaustur af Grímsey, en þar hófst skjálftahrina 25. september og síðan þá hafa sjö skjálftar stærri en 3 mælst þar.

Þetta kemur fram á vef Veðurstofu Íslands.

Þar segir að búið sé að yfirfara um 740 af skjálftunum sem mældust í síðustu viku.  Stærsti skjálftinn var 4,8 að stærð, hann varð laust eftir miðnætti aðfaranótt 27. september í Bárðarbunguöskjunni. Þrír skjálftar til viðbótar voru yfir fjórum að stærð, þeir voru allir norðaustur af Grímsey.

Flestir skjálftanna mældust úti fyrir Norðurlandi, eða tæplega 700. Það er nokkuð minni virkni en í vikunni á undan þegar þeir voru um 1.300.