Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Þrír íbúar á Eir greindust með COVID-19

28.09.2020 - 15:44
Mynd með færslu
 Mynd: Bragi Valgeirsson - RÚV
Þrír íbúar á hjúkrunarheimilinu Eir í Grafarvogi hafa nú greinst með COVID-19 smit. Þetta staðfestir Kristín Högnadóttir framkvæmdastjóri hjúkrunarsviðs Eirar. Verið er að útbúa COVID-deild á Eir.

Íbúi á heimilinu greindist með COVID-19 smit á föstudaginn, en áður hafði starfsmaður þar greinst með sjúkdóminn. Nú hafa tveir íbúar til viðbótar greinst.

„Við höfum verið að skima og höfum núna sett deildina í sóttkví,“ segir Kristín. Hún segir að það sé nokkuð umfangsmikið verkefni að útbúa lokaða deild, en til standi að flytja fólkið á deildina síðar í dag.

COVID-deildin verður útbúin í húsnæði sem hefur hýst dagþjálfun Eirar og flyst sú starfsemi annað. Kristín segir að heimilinu verði nú lokað fyrir utanaðkomandi fram á þriðjudaginn í næstu viku, 6. október. „Við tökum stöðuna á mánudaginn og tökum þá ákvörðun um hvort við verðum áfram með lokað.“