
Stjórnendur þeirra stærstu svartsýnir
Greint er frá niðurstöðunum á vefsíðu Samtaka atvinnulífsins.
Þar segir að 71% stjórnenda fyrirtækja í ferðaþjónustu telji að ástandið muni versna næstu sex mánuðina en 18% þeirra telja að það muni batna. Í byggingarstarfsemi búast 54% stjórnenda við verri stöðu. Mestar væntingar um betri stöðu eru í fjármálastarfsemi þar sem næstum því helmingur stjórnenda segist búast við batnandi stöðu.
Stjórnendur í verslun hafa einnig væntingar um bata, en 38% þeirra búast við betri stöðu eftir hálft ár.
Fram kom að fækkun starfa er framundan í öllum atvinnugreinum, 34% stjórnenda sögðust búast við fækkun starfsfólks en 11% við fjölgun næstu sex mánuðina. Stjórnendur í ferðaþjónustu sjá fram á mesta fækkun starfsmanna, en þar á eftir kemur fjármálastarfsemi, verslun og iðnaður. Síst er búist við fækkun starfsfólks í sjávarútvegi og þar á eftir kemur byggingarstarfsemi og verslun.
Þá var spurt um skort á starfsfólki; 92% stjórnenda sögðu ekki skort á því, en 8% sögðust hafa orðið varir við skort á fólki og var hann mestur í iðnaði.
Næstum því helmingur stjórnenda sagðist búast við að fjárfestingar fyrirtækjanna myndu dragast saman á milli ára, en 13% býst við aukningu. 55% stjórnendanna býst við minni hagnaði í ár en undanfarin ár, en 21% á von á meiri hagnaði.
Stjórnendur voru spurðir um þá þætti sem hefðu mest áhrif á hækkun á verð á vöru og þjónustu næstu sex mánuði. 46% nefndu þar launakostnað sem þann þátt sem hefði mest áhrif í þessu sambandi og hækkun aðfanga var í öðru sæti.