Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Skipverji á Þórunni Sveins smitaður af COVID-19

28.09.2020 - 13:05
Mynd með færslu
 Mynd: Shutterstock
Skipverji á skuttogarnum Þórunni Sveinsdóttur frá Vestmannaeyjum greindist með kórónuveiruna um helgina. Búið er að setja eina áhöfn skipsins í sóttkví, og önnur áhöfn verður send í skimun þegar þeir koma í land síðar í vikunni.

Eyjafréttir greina frá þessu og staðfestir Gylfi Sigurjónsson skipstjóri þetta í samtali við fréttastofu. Hann er sjálfur í sóttkví. Hann segir að enn sem komið er sé enginn annar skipverji kominn með einkenni af þeim 20 sem hafa verið í samskiptum við hinn smitaða. Þeir komu í land á miðvikudaginn í seinustu viku og fór hinn smitaði þá til Reykjavíkur, og fann fyrir einkennum eftir þá ferð á föstudag. Hann var svo greindur með kórónuveiruna á laugardag. 

Því var ákveðið að setja áhöfnina í sóttkví, en það sé fyrst og fremst varúðarráðstöfun. Hluti áhafnarinnar sem var um borð í túrnum með hinum smitaða hélt aftur til sjós á miðvikudaginn og því verða allir sem eru á sjó nú skimaðir við komuna í land, sem ætti að vera á miðvikudag.