Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Segir málflutning forsvarsmanna Eimskips ótrúverðugan

28.09.2020 - 20:15
Það er ekki trúverðugt þegar forsvarsmenn Eimskips halda því fram að þeir hafi ekki vitað að til stæði að rífa tvö fragtskip félagsins á hinni alræmdu indversku Alang-strönd, eins og greint var frá í fréttaskýringaþættinum Kveik fyrir helgi. Þetta segir Baskut Tuncak, sérstakur erindreki mannréttindaráðs Sameinuðu þjóðanna sem hefur það hlutverk að fjalla um áhrif af flutningi hættulegs og mengandi úrgangs til þróunarlanda.

Tuncak segir það valda sér miklum vonbrigðum þegar fyrirtæki sem skreyta sig með sáttmálum Sameinuðu þjóðanna eru tengd starfsemi eins og skipaniðurrifi á ströndum Asíu. Hvað þá þegar þau líta viljandi undan og neita að horfast í augu við afleiðingarnar, sem séu stórtjón fyrir samfélögin á svæðinu.  

Helgi Seljan ræddi við Tuncak sem, eins og forverar hans, hefur varið drjúgum tíma í að reyna að stöðva niðurrifið á ströndum Alang.  

Lítið breyst á síðustu árum 

Skipaniðurrif hefur ítrekað komið inn á borð Tuncak og honum hafa borist ótal ábendingar er varða mannréttindabrot í tengslum við skipaniðurrif. Hann segir að forveri hans í starfi hafi farið í skoðunarferð að Alang-ströndinni árið 2009 en að yfirvöld í Indlandi, Pakistan og Bangladess hafi neitað honum sjálfum um aðgang að svæðinu. „Ég hef oft óskað eftir því að fá að skoða svæðið. Ég hef ýmist verið beðinn um að senda beiðnina aftur síðar eða ekki fengið svar,“ segir hann. 

Forsvarsmenn skipafyrirtækja láta ítrekað í það skína að aðstæður á Alang-ströndinni hafi breyst til hins betra frá því árið 2009. Aðspurður hvort það hljómi sannfærandi segir Tuncak að ekki sé hægt að fullyrða um miklar breytingar. Einhver fyrirtæki hafi hrint af stað verkefnum til að bæta aðstæður á afmörkuðum svæðum en á heildina litið eigi svæðin langt í land. „Iðnaðurinn í kringum skipaniðurrif sýnir svart á hvítu hversu náskyld umhverfisvernd og aðstæður verkafólks geta verið,“ segir hann. 

Evrópuríki ekki lagt nóg á sig 

Tuncak segir yfirvöld ríkja um allan heim þurfa að taka ábyrgð á vandanum í kringum niðurrifsiðnaðinn og minnir á ályktun sem mannréttindaráð Sameinuðu þjóðanna sendi frá sér á síðasta ári. Þar voru ríki heimsins hvött til að bæta aðbúnað verkafólks og verja það gegn hættulegum vinnuaðstæðum.

Aðspurður segir Tuncak ljóst að Evrópuríki hafi ekki lagt nóg á sig til að koma í veg fyrir að skip séu send til niðurrifs á svæðum á borð við Alang-ströndina. „Það er hægt að endurvinna skipin á mun umhverfisvænni og sjálfbærari hátt. En fyrirtæki með höfuðstöðvar í Evrópu líta ítrekað fram hjá vandanum og ýta sífellt undir mannréttindabrot. Ég held að það sé ótækt að segja að nóg hafi verið að gert fyrr en vandamálið er hreinlega úr sögunni,“ segir hann.  

Heitstrengingar skila sér ekki alltaf við ákvarðanatöku 

Eimskip hefur á undanförnum árum haldið á lofti yfirlýsingum um samfélagsábyrgð og umhverfisvernd. Árið 2018 birti Eimskip til dæmis tilkynningu um þátttöku félagsins í UN Global Compact, sáttmála Sameinuðu þjóðanna um samfélagsábyrgð fyrirtækja og stofnana að því er varðar mannréttindi, vinnumarkað, umhverfi og aðgerðir gegn hvers kyns spillingu. Eimskip kvaðst þannig hafa skuldbundið sig til að haga rekstrinum í samræmi við það og samtvinna sáttmálann stefnu félagsins, menningu og daglegri starfsemi.

Tuncak segir heitstrengingar ekki alltaf skila sér þegar taka þurfi ákvarðanir metnar í krónum og aurum. „Það eru mikil vonbrigði að fyrirtæki í Evrópu, sem hafa skuldbundið sig sáttmálum Sameinuðu þjóðanna um mannréttindi, haldi sífellt áfram að ýta undir vandann,“ segir hann.  

Bæði Eimskipafélagið og fyrirtækið GMS, sem keypti Goðafoss og Laxfoss, vísuðu til þess að skipaniðurrifsstöðvarnar tvær í Alang sem rifu Laxfoss og Goðafoss hefðu starfað í samræmi við svokallaðan Hong Kong-sáttmála og hefðu sérstaka vottun þess efnis. Nöfn þessara tveggja stöðva er þó hvergi að finna á lista indverskra stjórnvalda yfir þær sem hafa vottun í anda Hong Kong-sáttmálans, sáttmála sem hefur ekki tekið formlegt gildi og er auk þess harðlega gagnrýndur og sagður skálkaskjól fyrir vinnubrögð sem evrópsk löggjöf og Basel-sáttmálinn voru sett til höfuðs.  

„Þegar allt kemur til alls er ljóst að það þarf að stöðva þennan iðnað á ströndum Asíu. Og Hong Kong-sáttmálinn hjálpar honum að þrífast. Starfsemin brýtur í bága við skuldbindingar Evrópuríkja, bæði er varða umhverfisvernd og mannréttindi,“ segir Tuncak. 

Ótrúverðugt að forsvarsmenn Eimskips hafi ekki vitað að skipunum yrði siglt til Indlands 

Talsmenn Eimskips hafa borið því við að þeir hafi ekki haft hugmynd um að skipunum yrði siglt til Indlands til niðurrifs. Viðmælendur Kveiks töldu það ótrúverðugt. Eimskipi hafi mátt vera það ljóst með því að selja þekktasta brotajárnsmillilið heims skipin. GMS hefur beinlínis sagst bjóða evrópskum skipafélögum upp á það sem fyrirtækið segir „löglega leið fram hjá evrópskum lögum“; með því að kaupa skip, sigla þeim út úr Evrópu, og gefa ekki upp endanlegan áfangastað í Asíu, sem er nákvæmlega það sem var gert við Goðafoss og Laxfoss.  

Tuncak telur skýringar Eimskips ekki standast nokkra skoðun. „Þetta er ekki trúverðugt að mínu mati. Þetta er leið Eimskips til að líta fram hjá vandanum. Enginn innan iðnaðarins myndi trúa þessu, held ég. Verðið sem þeir selja skipin á gefur skýra vísbendingu um að þau verði send til niðurrifs á ströndum Indlands, Pakistans eða Bangladess,“ segir hann.