Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Samtök atvinnulífsins kjósa um lífskjarasamninginn

28.09.2020 - 07:11
Mynd með færslu
 Mynd: Þór Ægisson - RÚV
Atkvæðagreiðsla aðildarfyrrirtækja Samtaka atvinnulífsins um hvort rifta eigi Lífskjarasamningnum hefst annað hvort í dag eða á morgun. SA á fund með stjórnvöldum í dag. Samtök atvinnulífsins og Alþýðusamband Íslands greinir á um hvort forsendur lífskjarasamningsins séu brostnar eða ekki.

Samtök atvinnulífsins og Alþýðusamband Íslands greinir á um hvort forsendur lífskjarasamningsins séu brostnar eða ekki. SA líta svo á að forsendur hafi ekki haldið í ljósi efnahagsáhrifa kórónuveirufaraldursins. ASÍ er því ósammála. Drífa Snædal, forseti ASÍ, sagði í fréttum í gær að það væri það versta sem hægt væri að gera væri að boða til ófriðar og óvissu á íslenskum vinnumarkaði. Ábyrgð atvinnurekenda sé mikil. Samkvæmt samningnum eiga laun að hækka um næstu áramót.

Stjórnvöld ræddu um helgina við aðila vinnumarkaðarins og ræða við Samtök atvinnulífsins í dag.  

Samtök atvinnulífsins hafa lagt fram þrjár tillögur.  Að fresta ákvörðunartöku um lífskjarasamninginn í tvo mánuði, bíða og sjá hver efnahagsleg áhrif kórónuveirunnar verða en halda lífskjarasamningi í gildi og þriðja tillagan er að lækka mótframlag atvinnurekenda í lífeyrissjóð tímabundið. Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri SA, sagði í Silfrinu í gær að öllum þremur hafi verið hafnað. Hann lýsti vonbrigðum með að samtal við verkalýðshreyfinguna hefði ekki borið árangur. 

 

 

Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV