Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Ragnar Ólafsson – m.i.s.s.

Mynd: Justyna Stachowska / m.i.s.s.

Ragnar Ólafsson – m.i.s.s.

28.09.2020 - 14:40

Höfundar

Ragnar Ólafsson er þúsundfjalasmiður þegar kemur að tónlist og hefur komið víða við í íslensku tónlistarlífi undanfarin 15 ár. Á ferlinum hefur hann fengist við allt frá klassík og óperu til popptónlistar og þungarokks. Um þessar mundir er hann að gefa út aðra sólóplötu sína sem hann kallar m.i.s.s.

Ragnar ólst upp og bjó erlendis fyrstu 22 ár ævi sinnar, aðallega í Svíþjóð en einnig í Bandaríkjunum og á Svalbarða. Hann lét fyrst til sín taka í tónlist á menntaskólaárunum í Gautaborg. Þar spilaði hann með skrautlegri flóru hljómsveita og tónlistarmönnum á borð við söngvaskáldið Jens Lekman og Olof Dreijer úr hljómsveitinni The Knife. Eftir stúdentspróf bjó hann um tveggja ára skeið á Svalbarða og stofnaði þar nyrstu hljómsveit í heimi, Iris-Magnus.

Ragnar flutti heim til Íslands árið 2003 og las bókmenntafræði og sænsku við Háskóla Íslands samhliða tónlistarnámi í Tónlistarskóla Kópavogs og FÍH. Hann vann í nokkur ár fyrir sér sem trúbador á knæpum höfuðborgarinnar meðfram námi.

Ragnar er stofnmeðlimur hljómsveita á borð við Ask the Slave og In Siren, er liðsmaður hljómsveitanna Lightspeed Legend, Different Turns og Sign og hefur túrað nokkrum sinnum með Sólstöfum sem hljómborðsleikari. Hann er hvað þekktastur fyrir að vera einn þriggja liðsmanna í hljómsveitinni Árstíðum sem hefur gefið út sex hljóðversplötur á ferlinum, ferðast til meira en 30 landa til hljómleikahalds og unnið til fjölda tónlistarverðlauna erlendis. Þá hefur Ragnar einnig útsett tónlist fyrir Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva og samið tónlist fyrir sjónvarp og kvikmyndir.

Sólóverkefni Ragnars kom til sögunnar 2017 með plötunni Urges. „Heiðarlegt verk, plata sem varð að gera, og Ragnar getur gengið sáttur frá borði,“ ritaði Arnar Eggert Thoroddsen í umsögn sinni um Urges þegar hún var plata vikunnar ár Rás 2 það árið. Ragnar hefur farið í nokkrar hljómleikaferðir til Evrópu með sólóverkefni sitt síðustu tvö árin, og á COVID-tímum hefur hann haldið hálfsmánaðarlega stofutónleika fyrir dyggustu fylgjendur sína í gegnum Patreon-síðuna fyrir skapandi listamenn (https://www.patreon.com/ragnarolafsson/posts).

Nýjasta plata Ragnars, m.i.s.s., var samin á mánaðarlangri siglingu niður eftir Mississippi-fljótinu stóra á fljótabátnum Southern Nights. Eins og titillinn gefur til kynna er platan óður til fljótsins og mannlífsins þar en vísar líka til kvenna (missus) sem skáldið saknar (miss) og hugsar til þegar hann situr með gítar í hendi á dekkinu og fylgist með straumi fljótsins.

Á plötunni eru 12 lög sem teikna ferðasögu. Platan fjallar um fólkið sem varð á vegi hans, hvernig skiptust á skin og skúrir í ferðinni niður fljótið: sól og blíða breyttust í þrumur, eldingar og úrhellisrigningu, og hættulegir straumar báru bátinn af leið. Bátsferðin var eins og lífið sjálft, stundum auðveld og þægileg en líka stundum krefjandi og hættuleg en alltaf spennandi og gefandi. Ferðalagið hafði djúpstæð áhrif á Ragnar og m.i.s.s, sem er plata vikunnar á Rás 2 þessa vikuna, er óður til Mississippi-fljótsins mikla jafnframt því að vera óður til lífsgleði, vina og ásta.

Plata Ragnars Ólafssonar, m.i.s.s., er plata vikunnar á Rás 2 og verður spiluð í held sinni eftir tíufréttir í kvöld, mánudag, á Rás 2 ásamt kynningum Ragnars, auk þess að vera aðgengileg í spilara.