Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Öllum starfsmönnum flugvallarins í Eyjum sagt upp

28.09.2020 - 21:47
Mynd með færslu
 Mynd: Shutterstock
Isavia hefur sagt upp öllum starfsmönnum sínum á flugvellinum í Vestmannaeyjum. Um er að ræða þrjá starfsmenn og var þeim tilkynnt þetta í morgun.

Þetta kemur fram á Eyjar.net. Þar segir að fólkið sé ýmist með þriggja eða sex mánaða uppsagnarfrest og að það verði endurráðið í skertu starfshlutfalli. 

Ingibergur Einarsson, rekstrarstjóri flugvallarins, er einn þeirra sem sagt  var upp. Hann segir ekki liggja fyrir hversu hátt starfshlutfall fólki verður boðið eða hvernig framhaldið verður. Hann segir að þetta hafi komið á óvart. „Við áttum von á breytingum eftir að Ernir hættu að fljúga áætlunarflug, en kannski ekki að þetta yrði svona fljótt,“ segir Ingibergur.

Flugfélagið Ernir hætti að fljúga áætlunarflug á milli lands og Eyja um síðustu mánaðamót. Að sögn Ingibergs er flugvöllurinn talsvert notaður fyrir kennsluflug. Þá þarf hann einnig ávallt að vera til reiðu fyrir sjúkraflug og er einnig þjónustuvöllur fyrir Landhelgisgæsluna, en þar er geymd olía á þyrlur Gæslunnar. „Þó að áætlunarflugið hafi lagst af er heilmikil starfsemi - einhver þarf að sinna þessum störfum og við bíðum bara eftir að fá að heyra hvað verður,“ segir Ingibergur.