Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Ný tilgáta um harmleikinn á Eystrasalti

28.09.2020 - 19:51
epa000282999 (FILES) An undated file picture shows the passenger ferry M/S Estonia in the docks in Tallinn at Estline´s Ferry terminal Estonia. The passenger ferry M/S Estonia foundered in storm winds  in route between Tallinn, Estonia and Stockholm, Sweden ten years ago the night of  28 September 1994 killing 852 people.  EPA/Li Samuelson
Farþega- og bílferjan Estonia við bryggju í Tallinn í Eistlandi. Mynd: EPA - Scanpix Sweden
Stjórnvöld í Eistlandi ætla að rannsaka nýja tilgátu sem komin er fram um hvað olli því að farþegaferjan Estonia sökk á leið sinni frá Tallinn í Eistlandi til Stokkhólms í Svíþjóð árið 1994.

852 fórust í slysinu, sem er mannskæðasta sjóslys í Evrópu á friðartímum. Niðurstaða rannsóknar á tildrögum þess var sú að sjór hefði streymt inn um hlera á stefni ferjunnar sem leiddi inn á bílaþilfarið, og valdið því að hún sökk í vondu veðri.

Í nýrri heimildamynd er því haldið fram að stórt gat megi finna stjórnborðsmegin á skrokki ferjunnar, líkt og eftir högg, sem þarfnist frekari útskýringar. 

„Aftan við miðju ferjunnar sjáum við miklar skemmdir. Þær eru minnst fjögurra metra háar og 1,2 metrar á breidd. Það mætti kalla þetta sprungu,“ segir Henrik Evertsson, kvikmyndagerðarmaður.

Eistnesk stjórnvöld héldu fréttamannafund í dag eftir að tilgátan kom fram.

„Gera þarf nýja tæknilega rannsókn á þessum nýju uppljóstrunum í tengslum við Estonia sem fram komu í heimildarmyndinni sem sýnd var í dag,“ segir Jüri Ratas, forsætisráðherra Eistlands.