Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Mjaldrasystur taka fyrsta sundsprettinn í Klettsvík

28.09.2020 - 10:36
Mynd með færslu
 Mynd: Sea Life Trust
Mjaldrarnir Litla-Grá og Litla-Hvít tóku fyrsta sundsprettinn á nýjum heimaslóðum í Klettsvík við Heimaey í gær. Þær hafa dvalið í umönnunarlaug í sjókví í víkinni síðustu vikur og í tilkynningu frá Sea Life Trust segir að mjaldrarnir hafi tekið miklum framförum síðan þeir voru fluttir þangað í ágúst.

Þjálfarar mjaldranna hafa unnið að því hörðum höndum í sumar að undirbúa þá fyrir breytt skilyrði og lægra hitastig. Sérfræðingar fylgjast grannt með líðan þeirra og venja þá hægt og rólega við nýjar aðstæður. Mjaldrarnir fara í einhvern tíma aftur í umönnunarlaugarnar þar sem heilsa og líðan þeirra verður metin. 

Mynd með færslu
 Mynd: Sea Life Trust

„Við erum himinlifandi yfir þeim árangri sem Litla-Grá og Litla-Hvít hafa náð síðan þær fluttu í laugarnar. Þær nærast vel og aðlagast nýju og náttúrulegra umhverfi,“ er haft eftir Andy Bool, yfirmanni Sea Life Trust í tilkynningunni. „Það var stórkostlegt að sjá þær synda saman og kafa djúpt og við höfum sterklega á tilfinningunni að þær njóti þess að vera komnar aftur í sjóinn.“

Forsvarsmenn Sea Life Trust vonast til að fleiri mjaldrar komi og njóti þeirrar góðu og náttúrulegu aðstæðna sem samtökin bjóða upp á. „Við vonum að miklu fleiri af þeim 3.500 mjöldrum sem hafa verið í haldi og til sýnis verði fluttir á griðastaði sem þennan til að búa við náttúrulegri aðstæður,“ segir enn frekar í tilkynningunni.  

Mynd með færslu
 Mynd: Sea Life Trust

Griðastaðurinn í Klettsvík er sérstaklega ætlaður mjöldrum og höfrungum og sá fyrsti sinnar tegundar. Hann er rekinn af góðgerðarsamtökunum SEA LIFE Trust í samvinnu við alþjóðlegu verndarsamtökin Whale&Dolphin Conservation (WDC).