Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Jarðhiti í Bárðarbungu sífellt að aukast

28.09.2020 - 13:29
Mynd með færslu
 Mynd:
Snarpur jarðskjálfti í Bárðarbungu um helgina er ekki endilega fyrirboði frekari atburða þar, að sögn jarðeðlisfræðings. Stórir skjálftar fylgi kvikusöfnun í eldstöðinni. Jarðhiti er sífellt að aukast á þessu svæði og eitt af því vísindamenn fylgjast með er hvort aukin hætta er á hlaupi í Jökulsá á Fjöllum.

Rétt upp úr miðnætti á laugardagskvöld varð jarðskjáfti að stærðinni 4,8 um átta kílómetra aust-suðaustur af Bárðarbungu.

Stórir skjáftar í kjölfar kvikusöfnunar

Magnús Tumi Guðmundsson, prófessor við jarðvísindadeild Háskóla Íslands, segir þetta hluta af þekktri atburðarás. Það verði stórir skjáftar í Bárðarbungu einu sinni til tvisvar á ári. „Og virðast tengjast kvikusöfnun og kvikuhreyfingum og sennileg túlkun er að kvika sé að safnast þar fyrir og það ýti upp þakinu á kvikuhólfinu og þá verði þessir stóru skjálftar."    

Fylgjast grannt með hvort vatn safnist fyrir í jöklinum

Magnús segir að í miklu öskjusigi í endsumbrotunum 2014 og 2015 hafi jarðhiti í Bárðarbungu aukist mikið og sé í raun sífellt að aukast. Við það stækka sigkatlar í jöklinum og í rannsóknarflugi þar yfir í síðustu viku rauk mikið úr öðrum af tveimur kötlum í suðurbrún Bárðarbungu. Hann segir að það sé í sjálfu sér ekki nýtt. „Bárðarbunga er að verða með öflugri jarðhitasvæðum landsins og við fylgjumst dálítið grannt með henni eins og hægt er, upp á það hvort við sjáum einhver merki um að vatn sé að safnast fyrir undir þessum kötlum. En við höfum ekki séð slíkt ennþá."

Gæti hugsanlega leitt til jökulhlaups

En hvort að endi með því að þarna verði svo mikill jarðhiti að það fari að safnast fyrir vatn, sé ekki vitað, en með því þurfi að fylgjast. „Þetta gæti gerst. Þetta gæti leitt til þess að það fari að koma einhver hlaup í Jökulsá á Fjöllum, en engin ástæða til að spá því strax."