Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Hjálmar gefa út nýja plötu og myndband

Mynd: Benni Valsson / Hjálmar

Hjálmar gefa út nýja plötu og myndband

28.09.2020 - 19:59

Höfundar

Hljómsveitin Hjálmar hefur sent frá sér nýja plötu sem nefnist Yfir hafið. Reyndar má kalla hana nýja innan gæsalappa, því hún er endurgerð á annarri plötu sem kom út undir merkjum Unimog. Bernharð Valsson leikstýrir myndbandi við lagið Eins og þú.

„Endurnýting er mjög í tísku svo þetta er í takt við tímann,“ segir Þorsteinn Einarsson, söngvari og aðallagahöfundur Hjálma, sem semur öll lögin á plötunni. „Þetta er í rauninni ekki sama platan, þetta eru tvær ólíkar plötur en sömu lögin.“

Tilurð plötunnar er sú að árið 2014 fóru Þorsteinn og Guðmundur Kristinn Jónsson í tónleikaferðalag með Ásgeiri Trausta, bróður Þorsteins. Þeir tóku með sér ferðaupptökutæki og tóku lögin upp á hótelherbergjum á ferðalaginu.   

„Svo komum við heim og Siggi [Sigurður Guðmundsson] dró okkur i land, hjálpaði okkur að klára þetta og gerði stóran hluta af þessu.“ Platan kom út undir merkjum Unimog en tónlistarmennirnir gerðu ekkert til að fylgja henni eftir. „Hún fór fyrir ofan garð og neðan.“

„Okkur grunaði að sennilega vissu mjög fáir af þessari útgáfu,“ segir Sigurður. Og af því að hún fór verulega hljótt og í rauninni hvarf þá ákváðum við að nýta þetta og gefa út undir nafni Hjálma, því þetta eru mjög góð lög hjá Steina.“  

Mynd: RÚV / RÚV
Þorsteinn Einarsson og Sigurður Guðmundsson ræddu um plötuna í Menningunni.

Platan var tekin upp þegar Hjálmar fóru hringinn í kringum landið og áttu tvo frídaga fyrir austan.

„Við ákváðum að kíkja í Stúdíó Síló á Stöðvarfirði. Við tókum alla grunnana upp á 2 dögum og svo kláruðum við þetta hér í Hljóðrita og á Flateyri.“    

Nú þarf að fylgja plötunni eftir og gefa lögunum nýtt líf.  

„Það bara spurning hvað maður getur gert, það er allt dálítið óljóst. Við vonumst til að geta haldið að minnsta kosti útgáfutónleika hvernig sem það mun fara fram. Um leið og við getum farið að spila gerum við það.“

Í tilefni af útgáfunni lét hljómsveitin gera myndband við lagið Eins og þú. Því er leikstýrt af Bernharði Valssyni og tekið upp á Akranesi.  

Rætt var við Þorstein og Sigurð í Hjálmum í Menningunni. Horfa má á innslagið hér að ofan sem og nýtt myndband við lagið Eins og þú.