Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Ekki fylgst með því hvort ferðamenn stoppi stutt

Mynd: Almannavarnir / Almannavarnir
Ekki er sérstaklega fylgst með því hvort fólk sem kemur hingað til lands ætlar sér að stoppa stutt, jafnvel í færri daga en það á að vera í sóttkví við komuna til landsins. Þetta kom fram á upplýsingafundi almannavarna í dag.

Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn sagði að ef lögreglumenn á Keflavíkurflugvelli óttuðust að ferðamenn myndu ekki virða reglur um sóttkví þá væri reynt að ræða við þá og gera þeim grein fyrir því hvaða afleiðingar það hefði í för með sér. 

Greint var frá því í gær að fjórir erlendir ferðamenn hefðu verið handteknir í miðbæ Reykjavíkur á laugardagskvöld, grunaðir um brot á sóttvarnareglum. Aðspurður hvort hann teldi að herða þyrfti eftirlit með þeim sem hingað koma sagðist Víðir ekki telja það þurfa. „Þetta er bara grundvallarspurning um það í hvernig samfélagi við viljum búa. Viljum við búa í samfélagi með mjög miklu lögreglueftirliti? Eða viljum við búa í samfélagi það sem við treystum borgurunum og treystum fólki? Síðan er líka hægt að fara einhvern milliveg sem ég held við séum að gera að miklu leyti, það er að segja, við fylgjum vel öllum ábendingum sem berast um hugsanleg brot á sóttkví og það er til rammi sem grípur þau mál,“ sagði hann.

„Getan til að hafa eftirlit er auðvitað til staðar og við erum með kerfi og eftirfylgnisteymi sem fylgir málum eftir. Til dæmis þeir sem ekki skila sér í seinni skimun, það er hringt og tékkað á því hvað veldur því. Oft er þetta fólk sem er hér bara í mjög stuttum erindagjörðum og er farið bara af landinu áður en um líður, fer bara í jarðarfarir og annað slíkt, og aðrir mæta ekki í skimun,“ sagði hann.