Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

COVID-19 faraldurinn sá skæðasti á þessari öld

28.09.2020 - 06:57
A person walks past a piece of coronavirus themed art by the artist, known as the Rebel Bear after it appeared on a wall on Bath Street in Glasgow, Scotland, Friday April 3, 2020. The highly contagious COVID-19 coronavirus has impacted on nations around the globe, many imposing self isolation and exercising social distancing when people move from their homes. (Andrew Milligan/PA via AP)
 Mynd: APimages
Kórónuveirufaraldurinn sem veldur COVID-19 er sá banvænasti á öldinni. Yfir milljón er nú látin af völdum veirunnar á heimsvísu. H1N1 veiran, sem einnig var kölluð svínaflensan, sem fór um heiminn árið 2009 varð 18.500 að bana samkvæmt opinberum tölum. Eftir nánari eftirgrennslan töldu faraldursfræðingar að allt að 575 þúsund hafi látið lífið af völdum svínaflensunnar.

SARS-veiran, sem dreifðist um Kína og Kanada, varð 774 að bana í byrjun aldarinnar, en náði aldrei heimsútbreiðslu. Árlegir flensufaraldrar verða allt að 650 þúsund manns að bana á heimsvísu.

Margfalt fleiri dóu í spænsku veikinni

COVID-19 er þó hvergi nærri jafn banvæn og spænska veikin var þegar hún fór um heiminn árin 1918 og 1919. Alls er talið að um 50 milljónir manna hafi látist af völdum hennar. Um miðja síðustu öld urðu tveir skæðir flensufaraldrar utan hinnar hefðbundnu árlegu flensu, annar kenndur við Asíu árin 1957 og 1958, og hinn við Hong Kong frá árinu 1968 til 1970. Um milljón lét lífið í hvorum faraldri.

Dauðsföll af völdum COVID-19 eru miklu fleiri en af völdum ebólu. Síðan ebóla greindist fyrst árið 1976 hafa um 15 þúsund látið lífið af völdum hennar. Dánartíðni af völdum ebóla er þó mun hærri en vegna COVID-19. Um helmingur allra sem sýkjast af ebólu láta lífið, og hefur dánartíðnin náð 90 prósentum í sumum faröldrum.

Yfir 30 milljónir látnir af völdum eyðni

Sú farsótt sem hefur orðið langflestum að bana í nútímanum er eyðni. Nærri 33 milljónir hafa látið lífið af völdum hennar síðan hún uppgötvaðist árið 1981. Ekkert bóluefni er til við eyðni, en með víxlveirulyfjum er hægt að halda sjúkdómnum niðri og minnka líkurnar á smiti. Dauðsföllum af völdum eyðni fækkaði úr 1,7 milljón árið 2004 niður í 690 þúsund fimm árum síðar. Um 1,3 milljónir deyja árlega af völdum lifrarbólguveirum B og C, langflestir í fátækari ríkjum.

AFP fréttastofan tók þessar upplýsingar saman úr gögnum Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar.