Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Ben Stiller í óvæntu gestahlutverki í Ráðherranum

Mynd: Sagafilm / Ráðherrann

Ben Stiller í óvæntu gestahlutverki í Ráðherranum

28.09.2020 - 11:42

Höfundar

Stórleikarinn Ben Stiller átti stutta en óvænta innkomu í öðrum þætti af Ráðherranum sem sýndur var í gær. Þar leikur hann sjálfan sig og birtist skyndilega á síma einnar persónunnar í myndbandi þar sem hann mótmælir hvalveiðum Íslendinga.

Forsagan í þættinum er sú að hinn óútreiknanlegi Benedikt sem, Ólafur Darri Ólafsson leikur, tilkynnir að þjóðin eigi að skrifa stjórnarsáttmála ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokksins og Samfylkingarinnar frekar en flokkarinir. Það verði útfært þannig að fólk tísti tillögum sínum á samfélagsmiðlinum Twitter og þær sem fái flest endurtíst (retweet) endi í stjórnarsáttmálanum.

Ben Stiller ákveður sem sagt að reyna að taka þátt í ritun stjórnarsáttmálans og tístir myndbandi af sér að mótmæla hvalveiðum Íslendinga. Þar játar hann ást sína á landi og þjóð eftir að hafa tekið upp bíómynd hér, og lofar lýðræðisanda landans sem hann telur að framtak Benedikts sé til marks um. „En eitt sem mér hefur aldrei líkað vel við eru hvalveiðarnar. Þær eru slæmar fyrir landið, ferðamennskuna og orðsporið en fyrst og fremst eru þær slæmar fyrir hvalina. Svo hér er tillaga frá mér: Hættið hvalveiðum! Ef við fáum nógu mörg rítvít á það verður það að lögum.“

Eins og alþjóð veit tók Ben Stiller kvikmynd sína, The Secret Life of Walter Mitty, að hluta upp á Íslandi árið 2012. Ólafur Darri var meðal þeirra sem léku í myndinni og heillaði Stiller sem síðan hefur lýst yfir dálæti á leik Ólafs Darra í þáttum eins og Ófærð og The Missing á samfélagsmiðlum. Þá hefur Stiller lýst ást sinni á Íslandi áður í viðtölum en virðist ekki hafa úttalað sig mikið um hvalveiðar í raunveruleikanum. Hægt er að horfa á Stiller í gestahlutverki í Ráðherranum í spilaranum efst í færslunni.

Tengdar fréttir

Sjónvarp

Sjáðu Boga og Ólaf Harðar spinna í Ráðherranum

Sjónvarp

Ólafur Darri á nálum yfir Ráðherranum

Sjónvarp

„Reyndum virkilega að koma okkur í þennan hugarheim“

Stjórnmál

„Leyfum við stjórnmálamönnum að vera andlega veikir?“