Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Aldrei jafnmargir í farsóttarhúsinu og nú

Farsóttarhúsið við Rauðarárstíg í Reykjavík
 Mynd: Þór Ægisson
Alls dvelja 60 manns í farsóttarhúsinu við Rauðarárstíg og aldrei hafa jafnmargir dvalið þar og nú. 37 eru þar í einangrun og 23 í sóttkví. Þetta segir Gylfi Þór Þorsteinsson, umsjónarmaður farsóttarhússins, í samtali við fréttastofu.

Næstum tífalt fleiri en í fyrstu bylgjunni

Gylfi segir að í fyrstu bylgju farsóttarinnar hafi gestir farsóttarhússins verið samtals 50, en eftir að faraldurinn tók sig aftur upp í sumar hafi hátt í 480 dvalið þar. Fjöldinn er því næstum tífaldur á við síðustu bylgju. Spurður hvað skýri þessa miklu fjölgun segir hann að nú sé meðalaldurinn lægri en þá: „Hér eru margir á þrítugs- og fertugsaldri, til dæmis háskólanemar. Það er kannski erfiðara fyrir þann hóp að vera heima, sumir leigja kannski með mörgum öðrum,“ segir hann. Þá hafi líka verið enn minna um flug til landsins í vetur og vor en nú.

Nær allir sem eru í einangrun í farsóttarhúsinu eru Íslendingar en um það bil 20 umsækjendur um alþjóðlega vernd bíða þar í sóttkví eftir að komast í seinni skimun eftir komuna til landsins. Þá hefur nokkur fjöldi erlendra ferðamanna dvalið þar síðustu vikur.  

Einangrunarhæðir nánast fullar og mikið að gera

Gylfi segir að einangrunarhæðir farsóttarhússins séu nánast fullar og að til standi að opna fleiri hæðir. Vegna þess hversu mjög hefur fjölgað í hópi þeirra sem dvelja í farsóttarhúsinu hefur aftur verið tekið í notkun aukahúsnæði á Rauðarárstíg til viðbótar við Fosshótels-húsið. 

Aðspurður um fjölda starfsfólks segir Gylfi að nú starfi alls sjö starfsmenn í húsunum og að oftast sé aðeins einn á vakt í einu, nema um hádaginn, þá séu tveir. Hann segir að nú taki mun færri sjálfboðaliðar þátt í starfinu heldur en síðasta vetur og vor þegar um það bil 50 sjálfboðaliðar störfuðu í farsóttarhúsinu: „Þjóðfélagið er á öðrum stað en í fyrri bylgjunni og fólk á sennilega erfiðara um vik að fá sig laust úr vinnu. Það er ekki jafnmikið um lokanir og þá,“ segir hann. Nú sé auglýst eftir fleira starfsfólki en að hann vonist einnig til þess að sjálfboðaliðar taki við sér aftur. 

Starfsmenn vitja hvers gests að lágmarki þrisvar á dag. Þeir færa gestum mat í bökkum og athuga um leið hvernig fólki heilsast. Gylfi segir að það sé mjög mikið að gera og að hann voni svo sannarlega að nú taki að hægja á fjölgun smita.