Ferðamálaráðherrar Evrópusambandsríkja funduðu síðdegis um stöðuna. Fyrir faraldurinn voru um tólf prósent vinnuafls í Evrópu innan ferðaþjónustunnar, en af um þremur milljónum fyrirtækja í greininni eru sex hundruð þúsund nú talin á barmi gjaldþrots.
Og samhliða færri ferðalögum eru víða boðaðar harðari aðgerðir. Um einni milljón íbúa í Madríd er nú gert að halda sig heima eins og kostur er, en yfir 700 þúsund smit hafa verið staðfest á Spáni og eru hvergi fleiri í Evrópu. Í Frakklandi er börum í París nú gert að loka klukkan tíu á kvöldin, en í Marseille er eigendum fyrirskipað að skella í lás á veitingastöðum og krám næstu tvær vikurnar.
„Við réðumst í fjárfestingar til þess að geta gætt að fjarlægðartakmörkunum, svo við skiljum ekki af hverju við þurfum að loka og læsa svona óvænt,“ segir kráareigandi í Marseille.
Í fyrsta sinn á leikskólann í sex mánuði
Á heimsvísu fjölgar tilfellum hraðast á Indlandi. Yfir sex milljón tilfelli eru staðfest, þar af yfir 80 þúsund síðasta sólarhringinn.
„Ef við náum ekki tökum á þessari stöðu þá eigum við eftir að sjá enn verri afleiðingar,“ sagði íbúi í Nýju Delí sem var að bíða eftir sýnatöku.
Á meðan eru Ástralir að fyllast aukinnar bjartsýni. Fimm smit greindust Í Viktoríufylki í dag og hafa ekki verið færri síðan 12. júní. Börn fengu að snúa aftur í daggæslu í dag, mörgum foreldrum til mikillar gleði.
„Ég var mjög spennt, því strákurinn minn er í leikskóla og heufr ekki mátt fara þangað í sex mánuði. Það er mjög langur tími fyrir lítið barn sem er að taka út félagslegan þroska,“ segir móðir barns í Melbourne.