Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Viðbúið að innlögnum fjölgi á næstu dögum

27.09.2020 - 12:40
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Hjalti Haraldsson - RÚV
Sóttvarnalæknir segir viðbúið að spítalainnlögnum fari fjölgandi á næstu dögum. Fjórir liggja nú á Landspítalanum með Covid-19 þar af einn á gjörgæslu og í öndunarvél.

„Þetta var fyrirséð. Við höfum talað um það allan tímann og sáum þetta líka í vetur að alvarleg veikindi koma upp svona einni til tveimur vikum eftir að sjúkdómurinn greinist. Þannig að það var alveg viðbúið. Ég held við gætum farið að sjá aukningu á innlögnum. Vonandi verður það ekki en þetta er kannski vísbending um það. Þetta er líka vísbending um það að sjúkdómurinn sé ekkert vægari núna heldur en hann var,“ segir Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir.

Tuttugu greindust með kórónuveirusmit í gær þar af voru tólf í sóttkví. Þetta eru færri smit miðað við dagana þar á undan. Þórólfur segir of snemmt að draga ályktanir um þróun faraldursins út frá þessum tölum.

„Ég held að ein skýringin sé kannski sú að það voru tekin færri sýni í gær heldur en í fyrradag. Eins og við höfum verið að benda á þá skýrast sveiflur í tölum á milli daga af stórum hluta kannski af sýnatökum. En það er óskandi að þetta væri nú kannski eitthvað á leiðinni niður en allavega þetta eru færri tilfelli sem eru að greinast og það er út af fyrir sig ánægjulegt,“ segir Þórólfur.

Hann segir að þróun faraldursins næstu daga ráði úrslitum um það hvort samkomutakmarkanir verði hertar.

„Við erum búnir að segja að við ætlum að horfa á þetta núna yfir helgina og sjá hvað gerist. Ég er bara í startholunum með mínar tillögur allt eftir því hvernig þróunin verður. Ef að þetta fer að fara niður og heldur áfram að fara niður þá bíður maður með það. Hins vegar ef að þetta fer að fara upp á við og við förum að sjá bæði aukningu í alvarlegum tilfellum og aukningu í tilfellum þá gæti þurft að herða,“ segir Þórólfur.