„Við erum ekki að kaupa, við erum bara að lifa lífinu“

Mynd: rúv / rúv

„Við erum ekki að kaupa, við erum bara að lifa lífinu“

27.09.2020 - 09:13

Höfundar

„Þegar ég fór í fæðingarorlof fyrir tveimur árum tók ég meðvitaða ákvörðun um að hafa ekki óþarfa dót í kringum mig. Ég var bara í fæðingarorlofi með strákinn minn og fór bara að henda dóti sem ég þurfti ekki,“ segir Sóley Ósk Hafsteinsdóttir sem hefur undanfarin ár lifað eftir minimalískum lífsstíl, sem snýr að því að minnka allan óþarfa og fá í staðinn meiri tíma. 

Í Landanum í kvöld fáum við að heyra sögu Sóleyjar. Hún hefur verið í fæðingarorlofi í tvö ár en fer fljótlega aftur á vinnumarkaðinn. Hún og maður hennar eru í sinni annarri íbúð og stefna á næstu árum á að byggja sér hús. Þau eru ekki að leggja neitt sérstaklega fyrir en spara mikið með því að sleppa öllum óþarfa. 

„Peningurinn bara safnast upp, við erum ekki að spara hann. Peningurinn sem annars færi í óþarfa fer bara til hliðar,“ segir Sóley. Þau eiga tvo syni, eins og tveggja ára og hugsa vel að kaupa engan óþarfa fyrir þá. Þeir eiga bara það sem þeir þurfa af fötum og ekki of mikið af dóti. Þannig skapist meiri tími til samvista og minni tími fer í að þvo þvott og taka til.

„Ég tek minna til, ég þríf minna, ég fæ meiri tíma með strákunum. Og ég eyði minni tíma í búðum,“ segir Sóley en þau vilja frekar nota peningana í upplifanir heldur en óþarfa hluti eða mat sem endar í ruslinu. Þau hafa ferðast mikið en á ferðalögum þeirra gildir það sama, njóta - ekki kaupa. „Við erum ekki að kaupa, við erum bara að lifa lífinu.“

Nánar verður rætt við Sóleyju í Landanum í kvöld sem hefst klukkan 19.45 en við kynnum okkur einnig brúarframkvæmdir, hittum yngsta stýrimann landsins, kíkjum í minnsta atvinnuleikhús landsins og óvenjulega lundabúð.

Tengdar fréttir

Menningarefni

Langar að leika fleiri dramahlutverk

Menningarefni

„Þarft að vera tilbúinn til að lifa annarra manna lífi"

Menningarefni

„Það breytist allt með aldrinum“