VAR áfram í aðalhlutverki á Englandi

epa08701707 Referee Peter Bankes checks the monitor before awarding a penalty to Newcastle during the English Premier League soccer match between Tottenham Hotspur and Newcastle United in London, Britain, 27 September 2020.  EPA-EFE/Clive Rose / POOL EDITORIAL USE ONLY. No use with unauthorized audio, video, data, fixture lists, club/league logos or 'live' services. Online in-match use limited to 120 images, no video emulation. No use in betting, games or single club/league/player publications.
 Mynd: EPA-EFE - GETTY POOL

VAR áfram í aðalhlutverki á Englandi

27.09.2020 - 15:13
Fyrir leik dagsins voru bæði Tottenham og Newcastle með þrjú stig í ensku úrvalsdeildinni. Eins og í mörgum leikjum það sem af er móti réðust úrslitin á vítaspyrnudómi eftir hendi.

Í öðrum leik dagsins í ensku úrvalsdeildinni voru það leikmenn Newcastle sem voru mættir í höfuðborg Englands til að spila gegn Tottenham. Sergio Reguilon, nýr leikmaður Tottenham, var á bekknum en annar nýr leikmaður þeirra, Gareth Bale, var ekki í leikmannahópi liðsins. Þá var Dele Alli einnig utan hóps en hann er ekki talin eiga framtíð hjá liðinu. 

Fyrsta mark leiksins kom á 24. mínútu en þá skoraði Lucas Moura eftir stoðsendingu frá Harry Kane. Var þetta fyrsta deildarmark Moura í 22 leikjum. Lið Tottenham sótti án afláts eftir markið og var nokkrum sinnum nálægt því að bæta við marki en allt kom fyrir ekki. Sama var upp á teningnum í seinni hálfleik, Tottenham voru mun betri og fengu fjölmörg tækifæri til að tryggja sér sigurinn en voru klaufar fyrir framan markið. 

Á 93. mínútu hrökk boltinn í höndina á Eric Dier innan vítateigs Tottenham og eftir að hafa ráðfært sig við myndbandsdómara flautaði Peter Bankes, dómari leiksins og gaf merki um vítaspyrnu. Callum Wilson fór á punktinn og jafnaði leikinn fyrir Newcastle með síðustu spyrnu leiksins. 

Leikmenn og þjálfarateymi Tottenham voru verulega ósáttir við dóminn og gerðu aðsúg að dómaratríóinu eftir leik sem endaði með því að aðstoðarþjálfari liðsins fékk rauða spjaldið. Eftir úrslitin eru bæði lið með fjögur stig eftir þrjá leiki.