Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Uppgjörið við Franco

27.09.2020 - 08:30
Mynd: Wikimedia Commons / Wikimedia Commons
Í fyrra voru liðin 80 ár frá lokum borgarastríðsins á Spáni. Það stóð í 3 ár og var blóðugt og sorglegt. Við tók 36 ára valdatíð Francos einsræðisherra, sem var ekki síður blóðug. Þjóðinni hefur tekist vel að feta einstigið frá einræði til lýðræðis, en svo virðist sem mikið uppgjör eigi sér nú stað við valdatíð Francos. Heimskviður brugðu sér til Sánar og tóku uppgjörið við Franco-tímann fyrir í síðasta þætti.

1. október 1936 var Francisco Franco útnefndur þjóðhöfðingi Spánar. Þá hafði borgarastríðið ekki staðið yfir nema í 2 og hálfan mánuð. Það var svo þennan saman dag 39 árum síðar sem Franco ávarpaði Spánverja í síðasta sinn. Ein milljón stuðningsmanna hans var samankomin til þess að hlýða á hann.

Einungis þremur dögum fyrr voru fimm karlar teknir af lífi á Spáni, aftökur sem hleyptu af stað öldu mótmæla um alla Evrópu.

Tæpum tveimur mánuðum síðar var Franco allur, 82 ára gamall. Síðan eru liðin 45 ár og enn er spænska þjóðin að gera upp einræðistímabil Francisco Franco sem ríkti í 36 ár. Hann komst til valda eftir þriggja ára blóðuga borgarastyrjöld sem skildi eftir sig djúp ör á spænskri þjóðarsál og sár sem mörg hver hafa aldrei gróið.

Þarna heyrum við niðurlag jólaávarps Francos árið 1960, fyrir sléttum 60 árum, þá hafði hann ríkt í rúm 20 ár og hann boðar þarna í niðurlaginu á þessu 40 mínútna ávarpi, sameinaða þjóð, trúarlega sameinuð, félagslega sameinuð og pólitískt sameinuð. Samt var þjóðin ekkert af þessu og einræðisstjórn Francos dró ekkert af sér á þessum árum, 20 árum eftir lok borgarastyrjaldarinnar við að hundelta andstæðinga falangista, fangelsa þá og lífláta.

Spánn klofnaði í tvennt

Uppreisn Francos í júlí 1936 og borgarastríðið sem stóð í þrjú ár, klauf Spán í tvennt. Í nýrri bók Francisco Leira, doktor í sagnfræði við Háskólann í Santiago de Compostela, Hermenn Francos, afhjúpar Leira hvernig uppreisnarherinn, her þjóðernissinna var stofnaður. Hann drepur þá mýtu að þjóðin hafi risið upp gegn stjórnvöldum af hugmyndafræðilegum eða pólitískum ástæðum. Mjög stór hluti hermanna Francos var alls ekki sannfærðir fylgjendur Francos, heldur saklaus peð, sem oft, gegn sannfæringu sinni voru skikkaðir til þess að berjast gegn samborgurum sínum, og taka þátt í hræðilegum grimmdarverkum gegn sínu eigin fólki. Þeir höfðu aðeins um tvennt að velja: Að gerast böðlar eða deyja.

Leira segir að allir þeir sem börðust í borgarstríðinu hafi því miður, með einum eða öðrum hætti gerst böðlar; þeir urðu allir að skjóta andstæðing sinn, sem í raun var saklaust fólk fangað í aðstæðum sem það hafði ekkert um að segja, þeir voru margir settir í aftökusveitir sem tóku menn af lífi og þeir urðu oft í návígi að skjóta fólk með köldu blóði.

Menn tala oft um að það þurfi að gera upp styrjaldir, tala um voðaverkin til þess að geta haldið áfram… en þarna og það á kannski miklu frekar við um borgarastríð þegar fólk berst við samlanda sína, nágranna, jafnvel vini, er erfitt að tala opinskátt um þá hræðilegu hluti sem feður, synir, bræður… já og nokkrar konur upplifðu og gerðu í stríðinu. Og þarna liggur kannski skýringin á því af hverju núna fyrst, heilum 80 árum eftir að borgarastríðinu lauk, svo mikið af upplýsingum, greinum, þáttum koma fram um borgarastríðið og áhrif þess á þjóðina.

Leira segir að á valdatíma Francos hafi ríkt dauðaþögn um stríðið sem helgaðist meðal annars af virðingu við þá sem höfðu þurft að taka þátt í þeim hildarleik. Þögnin helgaðist meðal annars af því að fólk hélt að samfélagið gæti hreinlega ekki skilið upplifanir þeirra sem höfðu verið á vígvellinum.

Og nú, eins og fyrr segir, er eins og þögnin hafi verið rofin. Í fyrra minntist þjóðin þess að 80 ár voru frá lokum hildarleiksins. Og nánast daglega er flett ofan af eða sagt frá hræðilegum atburðum úr stríðinu, ýmist í fjölmiðlum eða á vefsíðum sem eru helgaðar borgarastríðinu.

Uppgjörið sem beðið var eftir

Í fyrra var loks gengið í það, eftir margra ára togstreitu við fjölskyldu einræðisherrans fyrrverandi, að grafa upp jarðneskar leifar hans þar sem hann hvíldi í Dal hinna föllnu og grafa hann annars staðar. Andstæðingar Francos, og þeir eru margir, telja að Dalur hinna föllnu eigi að vera minnismerki um þá hermenn sem féllu í borgarastríðinu, hvorri hliðinni sem þeir börðust með, og að þar eigi einræðisherrann alls ekki heima. Og enn og aftur endurspeglaðist spænsk blokkapólítík í deilunni um legstað Francos, flokkar hægra megin við miðju vildu leyfa honum að hvíla þar sem hann var, en flokkar vinstra megin við miðju vildu flytja hann. Hann var fluttur í fyrrahaust, ekki langt, rétt um 60 kílómetra og lagður til hinstu hvílu í kirkjugarði í norðanverðri Madrid. Viðstaddir voru nánustu ættingjar Francos og um 100 falangistar sem hrópuðu slagorð og sungu baráttusöng falangista, en svo nefndust flokksmenn og skósveinar Francos.

Og stjórnvöld láta ekki sitt eftir liggja í uppgjörinu við Franco-tímabilið. Í síðustu viku ákvað ríkisstjórnin að endurvekja rúmlega 10 ára gömul lög sem upp á íslensku mætti kalla Lög um minningar sögunnar og er beint sérstaklega að einræðistíma Francós. Lögin eru í 66 liðum, þar er meðal annars kveðið sérstaklega á um að bannað verði að hylla Franco og stefnu hans og falangista opinberlega, við því liggur 150.000 evra sekt, eða sem nemur tæplega 25 milljónum íslenskra króna. Þá fela lögin í sér að kennsluefni um stjórnartíð Francos verður endurskoðað og uppfært, og stofnað verður sérstakt embætti saksóknara sem rannsakar mannréttindabrot í stjórnartíð Francos.

Andstæðingar Francos ofsóttir

Og þar er sannarlega af nægu að taka. Á 5. áratug síðustu aldar, árunum eftir að Franco og falangistar hans tóku við stjórnartaumunum, hófust stórkostlegar ofsóknir á hendur andstæðingum Francos. Allt að 15.000 Spánverjar enduðu í útrýmingarbúðum Hitlers, en tæplega 400.000 andstæðingar Francos voru settir í fangabúðir falangista, sem voru rúmlega 150, dreifðar um allan Spán. Talið er að um hálf milljón manna hafa flúið í útlegð eftir stríðið, en samkvæmt lögunum verður afkomendum þeirra sem flýðu í útlegð gert kleift að sækja um og öðlast spænskan ríkisborgararétt. Enn er ekki vitað hversu margir voru teknir af lífi á Spáni eftir stríðið, þar heyrast tölur allt frá 23.000 upp í 50.000.

Það segir sig nánast sjálft að það eru ekki allir jafn hrifnir af þessum lögum eða lagafrumvarpi. Á Spáni eru til samtök sem heita La Fundación Franco, eða Franco-stofnunin. Hún er ein af þeim félagasamtökum sem stjórnvöld ætla sér að banna, verði lögin að veruleika á næsta ári. Maður skyldi ætla að stofnun í kringum mann sem fór með völd á Spáni drjúgan hluta síðustu aldar, væri þokkalega fjölmenn, en svo er þó ekki. Meðlimir Franco-stofnunarinnar eru um 1.500 en það er hlutfallslega álíka og ef eitt fótboltalið á Íslandi væri félagatal einhverrar stofnunar á Íslandi. Svona rétt rúmlega 10 sálir.

El País ræddi við formann Franco-stofnunarinnar í síðustu viku til að fá skoðun hans á þessari boðuðu löggjöf. Juan Chicharro var eðlilega ekki par hrifinn, hann ver Franco með kjafti og klóm og segir að þeir falangistar sem framið hafi óhæfuverkin í stjórnartíð Francos hafi ekki gert það í hans nafni, og að Franco hafi aldrei heimilað slíkt. Rangt sé að kalla stjórnartíð Francos einræði, réttara orð sé Valdstjórn. Hann segir valdstjórnina hafa byggt lýðræði Spánar á fjölskyldunni, nærsamfélaginu og verkalýðshreyfingunni. Slíkt lýðræði sé að mörgu leyti mun sterkara en það sem við búum við núna. Stjórnmálaflokkar séu ekki til nokkurs gagns og skapi einungis sundrungu. Þeir láti stjórnast af hagsmunum fárra og blekki almenning. Og Chicharro klykkir út með því að benda á að þegar Franco hafi ákveðið að láta sverfa til stáls, árið 1936, hafi þjóðin verið sárafátæk og ólæs. Þegar hann lést hafi ríkt velmegun á Spáni. Nú standi hungrað fólk í löngum röðum til að þiggja ölmusu og 50.000 manns hafi látist úr farsótt á síðustu mánuðum, meira en tvöfalt fleiri en fórust í langvinnustu orrustu borgarastríðsins, Orrustunni við Ebró-fljótið á norðaustur-Spáni, sem stóð frá júlí til nóvember árið 1938. Þar féllu á milli 16 og 17.000 manns.

Eitt af mikilvægustu ákvæðum laganna snýr að því að snúa við dómum sem kveðnir voru upp yfir óvinum ríkisins í stjórnartíð Francos. Þúsundir fjölskyldna hafa í áraraðir barist fyrir því að hreinsa mannorð forfeðra sinna og ástvina, enda voru óhæfuverkin mörg.

Þessi orð saksóknara gegn 20 sakborningum árið 1939, segja allt um það hugarfar sem réði ríkjum í lok borgarastríðsins:

„Mig skiptir engu máli hvort þið eruð saklausir. Afstaða mín er grimm og miskunnarlaus og það kann að líta út fyrir að hlutverk mitt sé að sjá aftökusveitunum fyrir fóðri svo að ekkert hlé verði á félagslegum hreinsunum. En nei, hér tökum við, sigurvegarar stríðsins, allir virkan þátt í því að útrýma allri andstöðu til að koma á þeirri röð og reglu sem við viljum að ríki.“

Á meðan á stríðinu stóð drógu falangistar rúmlega 30.000 manns fyrir stríðsdómstól, rúmlega 3.000 voru dæmdir til dauða. Og vinnubrögðin voru fumlaus, sakborningum var skipaður verjandi sem aldrri ræddi við sakborninga. Dæmi voru um réttarhöld yfir 29 sakborningum, dauðadómur var kveðinn upp yfir 15 þeirra, réttarhöldin stóðu yfir í 90 mínútur, 3 mínútur á mann.

Fórnarlömb Francos

Við skulum líta á mál nokkurra fjölskyldna sem hafa leitast við að fá ómerkta dóma ástvina sinna og endurreisa æru þeirra.

Miguel Hernández er eitt ástsælasta ljóðskáld Spánverja á liðinni öld. Hann fæddist árið 1910 í Orihuela, sem er bær suður af Alicante. Hann var dæmdur til dauða þegar borgarastríðinu lauk, fyrir að hafa stutt rangan málstað, en dóminum var síðar breytt í 30 ára fangelsi. Í fangelsinu orti Hernández mörg sín fegurstu ljóð, stíllinn er knappur enda bréfsefni af skornum skammti, oft afrifur af salernispappír. Einn dag fékk Hernández bréf frá eiginkonu sinni þar sem hún segir honum að nú eigi hún og 2ja ára sonur þeirra ekkert matarkyns nema brauð og lauk.

Hernández orti af því tilefni sitt þekktasta ljóð sem heitir Vögguvísur um lauk. Það er ákall til sonar síns um að sína hugrekki og njóta æskunnar og tapa ekki gleðinni. Skömmu síðar, árið 1942, lést Miguel Hernández í fangelsi í Alicanter vegna berkla, 31 árs. Ljóðin sem hann orti í fangelsi voru mörgum árum síðar gefin út í Argentínu og er sú bók ein ástsælasta ljóðabók spænsku þjóðarinnar. Fjölskylda Hernández hefur án árangurs reynt að fá dóminum yfir honum hnekkt, en nú er talið víst að svo verði.

Ernesto Sempere var dæmdur til 20 ára fangelsisvistar árið 1940 fyrir margvísleg smábrot sem talin voru vinna gegn málstað þjóðernissinna. Hann var þá 18 ára. Honum var meðal annars gefið að sök að hafa teiknað skopmynd þegar hann var 15 ára og að hafa brotist inn í kirkju, þann dag var hann alls ekki í bænum. Faðir hans var tekinn af lífi um svipað leyti. Síðar kom í ljós að undirskrift játningarinnar var alls ekki undirskrift Ernesto, enda segist hann ekki kannast við eitt einasta af þeim brotum sem hann var dæmdur fyrir. Sonur hans fékk síðar afrit af réttarskjölunum og færði föður sínum. Hann gætti þess að strika yfir nöfn þeirra sem dæmdu hann, en honum sást yfir eitt nafn. Ernesto sá það, hringdi heim til hans og sagði við hann: Ég hringi bara til að segja þér að ég fyrirgef þér. Ernesto er látinn en fjölskylda hans vonast til að hann fái nú uppreist æru.

112 teknir af lífi í „garróta"

Salvador Puig Antich var síðasti maðurinn til þess að vera tekinn af lífi með hinu ógeðfellda tæki garróta, eða járnkraganum, sem er aftökutæki frá miðöldum. Hinn líflátni er klæddur í svartan kufl, með svarta hettu yfir höfði, settur á stól við staur og járnkragi settur um hálsinn á honum. Járnkraginn nær svo aftur fyrir staurinn og er tengdur við sveif sem böðullinn snýr, þannig herðir hann á hálsi fangans, brýtur á endanum barkann og kyrkir hann. Á sama tíma borast oddhvöss skrúfa inn á milli tveggja efstu hryggjarliðanna og sker mænuna í sundur. Andstyggðin við þessa aftökuaðferð, eins ógeðfellt og það er að gefa slíkum aðferðum einkunn, er að böðullinn getur í raun stjórnað lengd aftökunnar, og í tilfelli Salvadors Puig, þá tók það hann 20 mínútur að deyja. Hann var 25 ára. Alls voru 112 teknir af lífi með þessari aðferð í stjórnartíð Francos.

Dómstóll til að tryggja friðinn

Síðasta áratuginn sem Franco ríkti voru skipaður dómstóll sem ætlað var að tryggja almannafrið. Það sem hann í raun gerði var að ofsækja alla þá sem ríkið taldi að gætu ógnað ríkjandi stjórnvöldum. Á 12 ára tímabili ákærði dómstóllinn rúmlega 8.000 karla og um eitt þúsund konur. Þau voru samanlagt dæmd til 11.958 ára fangelsisvistar. Flestir þessara dóma verða ógiltir taki lögin gildi.

Þá má ekki gleyma því að minnihlutahópar sæktu ofsóknum allt fram á síðasta dag. Samkynhneigðir voru fangelsaðir og róma-fólk, sem aldrei var kallað annað en sígaunar, var ofsótt og jaðarsett opinberlega, fullyrt í ræðu og riti að þau væru sóttberar taugaveiki og grálúsug. Og bæjar- og borgarstjórnum bæja var gert að setja upp aðstöðu þar sem hægt væri að aflúsa sígaunana.

En á þessu máli, eins og flestum málum eru svo að minnsta kosti tvær hliðar. Það eru nefnilega ekki allir andstæðingar Francos sem vilja fá uppreist æru eða að dómum yfir þeim verði snúið við.

Ein þeirra sem hefur andstyggð á þessum nýju lögum er Lola Canales, sem var fyrsta konan sem var leidd fyrir stríðsdómstól eftir að borgarastríðinu lauk. Hún var fundin sek árið 1968 um uppreisn gegn hernum og dæmd til eins árs fangelsisvistar. Eftir það fór hún í útlegð til Parísar. Hún segir að hún hafi verið pólitískur fangi og að hún sé stolt af því. Með því að ómerkja dóminn yfir henni sé verið að gera sig að fórnarlambi og það sé hún alls ekki. Hún hafi verið sek um að berjast gegn valdstjórn fasista, það sé staðreynd. Hún telur sjálf að of mikið sé gert af því að horfa um öxl, það eina sem þjóni einhvejrum tilgangi sé að horfa fram á við. Umbreytingin frá einræði til lýðræðis eftir að Franco lést hafi verið gerð í sátt og samlyndi allra flokka, nú sé spænska þjóðin aftur að verða klofin eins og hún var í aðdraganda borgarastríðsins og pólitískir andstæðingar berist á banaspjótum.

johannhlidar's picture
Jóhann Hlíðar Harðarson
Fréttastofa RÚV