Þjálfari Schalke rekinn eftir 18 leiki án sigurs

epa08699538 Schalke's head coach David Wagner looks on during the German Bundesliga soccer match between Schalke 04 and SV Werder Bremen in Gelsenkirchen, Germany, 26 September 2020.  EPA-EFE/FRIEDEMANN VOGEL CONDITIONS - ATTENTION: The DFL regulations prohibit any use of photographs as image sequences and/or quasi-video.
 Mynd: EPA-EFE - EPA

Þjálfari Schalke rekinn eftir 18 leiki án sigurs

27.09.2020 - 11:09
Þýska úrvalsdeildarliðið Schalke hefur rekið þjálfara sinn, David Wagner, eftir afleitt gengi í síðustu leikjum.

David Wagner tók við Schalke fyrir síðasta tímabil og fór nokkuð vel af stað með liðið. Schalke var lengi vel í baráttu um að ná Meistaradeildarsæti en þegar líða fór á mótið versnaði gengi þeirra og liðið var afleitt eftir að deildarkeppnin í Þýskalandi hófst á ný eftir hlé vegna kórónuveirunnar. Liðið spilaði síðustu 16 leiki deildarinnar án sigurs og fékk aðeins tvö stig úr sjö leikum eftir að deildin fór aftur af stað. Schalke byrjaði nýtt tímabil hræðilega og tapaði 8 - 0 gegn Þýskalandsmeisturunum í Bayern Munchen í fyrsta leik tímabilsins. Í gær tapaði Schalke á heimavelli gegn Werder Bremen og fengu stjórnarmenn liðsins þá nóg og ráku Wagner. 

Áður en Wagner tók við stjórnartaumunum hjá Schalke þjálfaði hann Huddersfield á Englandi. Þar náði hann fínum árangri þegar hann kom liðinu upp í úrvalsdeild. Liðið hélt sæti sínu fyrsta tímabilið og var því lýst sem þjálfaralegu afreki Wagner að halda liðinu í deildinni. Það fór hinsvegar að halla undan fæti á næsta tímabili og í janúar 2019 hætti Wagner með liðið en þá var Huddersfield í neðsta sæti deildarinnar, átta stigum frá öruggu sæti.