Seyðfirðingar komast loksins aftur í bíó

Mynd: Seyðisfjörður/Needpix / Seyðisfjörður

Seyðfirðingar komast loksins aftur í bíó

27.09.2020 - 14:24

Höfundar

Þær Celia Harrison og Sesselja Hlín Jónasardóttir rekstrarstjórar Herðubreiðar, menningar-og félagsheimilis Seyðisfjarðar, gerðu sér lítið fyrir og opnuðu kvikmyndahús á Seyðisfirði 26. júlí síðastliðinn eftir langt hlé á bíósýningum í bænum. Þar verða sýndar nýjustu kvikmyndir alla föstudaga og sunnudaga.

„Þegar við Celia tókum við rekstrinum fyrir þremur árum byrjuðum við að fá heimsóknir frá fólki sem sagði okkur skemmtilegar sögur af því þegar þau voru yngri og sóttu hérna bíóið,“ segir Sesselja Hlín Jónasardóttir í samtali við Síðdegisútvarpið á Rás 2. Ýmislegt skondið átti sér stað í bíóinu á sínum tíma og hafa þær skemmt sér yfir sögum af eftirminnilegum atburðum eins og af sýningarstjóranum sem sofnaði reglulega yfir myndinni og þegar hann byrjaði myndina á vitlausum enda og sýndi þess vegna lokaatriði myndarinnar um leið og ljósin voru slökkt.

Stöllurnar voru snortnar af sögunum sem bæjarbúum þykir augljóslega vænt um svo þær ákváðu að opna bíóið á ný og skapa nýjar sögur og minningar, en það hafði ekki verið starfrækt síðan árið 2008. Nú er hægt að heimsækja bíóið á ný og fara aftur í tímann en bíóið er nánast í upprunalegri mynd útlitslega þó græjum hafi verið skipt út og salurinn málaður. „Það komast 120 í sæti svo þetta er alvöru bíó. Og í sjoppunni er poppvél svo það er allt til alls,“ segir Sesselja stolt. „Það ríkir mikil gleði og það eru allir sammála um að það sé gaman að fá bíóið aftur í bæinn.“

Hægt er að hlýða á viðtalið við Sesselju í spilaranum efst í fréttinni.

Tengdar fréttir

Kvikmyndir

Bíó Paradís opnar og Skjaldborg fer suður

Menningarefni

Í skýjunum með handlagna velunnara Bíó Paradísar

Menningarefni

Sparibaukurinn fullur eftir tíu ár í geymslu

Myndlist

Seyðisfjörður baðaður ljósi