Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Safnstjóri Auschwitz býðst til að afplána fyrir táning

27.09.2020 - 08:12
epa08166332 Director of the State Museum Auschwitz-Birkenau Piotr Cywinski attends a press conference before the ceremonies marking the 75th liberation anniversary of the German Nazi Concentration and Extermination Camp Auschwitz-Birkenau, in Oswiecim, Poland, 26 January 2020. Auschwitz-Birkenau, the largest German Nazi concentration and death camp, was liberated by the Soviet Red Army on 27 January 1945.  EPA-EFE/Jacek Bednarczyk POLAND OUT
 Mynd: EPA
Yfirmaður minjasafnsins í Auschwitz í Póllandi kallar eftir því að forseti Nígeríu náði 13 ára dreng sem hlaut tíu ára fangelsisdóm fyrir guðlast. Til vara býðst hann til þess að afplána hluta dómsins fyrir drenginn.

Táningurinn Omar Farouq er sakaður um að hafa farið ófögrum orðum um Allah í rifrildi við vin sinn. Hann var dæmdur í sjaría-dómstól í Kano-héraði í norðvestanverðu landinu, og þarf að sitja í tíu ár í fangelsi fyrir orð sín. Piotr Cywinski, yfirmaður minjasafnsins í Auschwitz, hvetur Muhammadu Buhari Nígeríuforseta til þess að hlutast til í máli Farouqs. Cywinski skrifar í bréfi til forsetans að ef hann geti ekki náðað hann, þá ættu 120 fullorðnir sjálfboðaliðar að taka út dóminn. Hver og einn þeirra afpláni þá mánuð, og hann sjálfur þar á meðal.

Sem stjórnandi minjasafns Auschwitz, þar sem börn voru fangelsuð og drepin í útrýmingabúðum nasista, geti hann ekki látið óafskipta svo svívirðilega refsingu í garð barns. Hann ætti ekki að þurfa að glata barnæsku sinni og glata tækifærum það sem eftir er lífs hans, skrifar Cywinski í bréfið til Buhari.

Talsmenn forsetans hafa neitað að tjá sig um málið. Talsmaður dómsmálaráðuneytisins í Kano héraði sagði í samtali við Reuters fréttastofuna að forsetinn hafi vald til þess að náða drenginn.

Fleiri hafa fordæmt dóminn. Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna, UNICEF, sakar Nígeríu um að brjóta gegn alþjoðasáttmálum.

Guðlast gegn íslam varðar dauðarefsingu í tólf héruðum Nígeríu þar sem dæmt er samkvæmt sjaría-lögum. Sárasjaldan eru menn þó teknir af lífi. Nokkrir brotamenn hafa verið aflimaðir.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV