Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Öll áhöfnin með COVID-19 - sigldu heim í skítabrælu

27.09.2020 - 21:45
Mynd með færslu
 Mynd: Landspítalinn
Allir skipverjar á línuskipinu Valdimar GK, 14 talsins, fengu það staðfest í dag að þeir væru sýktir af kórónuveirunni. Veikindi komu upp hjá áhöfninni þegar skipið var að veiðum vestur af Hornafirði og þegar fjölgaði í hópi þeirra var ákveðið að snúa til hafnar. Skipið átti þá eftir nærri sólarhringssiglingu í „skítabrælu,“ eins og öryggisstjóri útgerðarinnar orðar það.

„Við fengum veður af því seint á fimmtudagskvöld að einhverjir skipverjar væru með flensueinkenni,“ segir Björn Halldórsson, öryggisstjóri útgerðarfélagsins Þorbjarnar sem gerir skipið út.

Strax var haft samband við embætti landlæknis og almannavarnir og verkferlum sem útgerðin hafði sett sér í vor fylgt. Ákveðið var að bíða til morguns og fylgjast grannt með framvindu mála. „Um nóttina höfðu því miður fleiri bæst í hópinn og þá var ákveðið að sigla strax í land.“

Björn segir að skipið hafi átt bókaðan tíma í slipp í Njarðvikum og því var ákveðið að sigla þangað.  „En þeir áttu eftir sólarhringssiglingu í skítabrælu,“ segir Björn en skipið hafði verið á veiðum rétt út af Hornafirði.

Björn segir að bæði embætti landlæknis og almannavarnir eigi þakkir skilið fyrir aðkomu sína en ekki síður áhöfnin og skipstjórinn því það sé hræðileg staða að vera með hópsýkingu út á sjó. „Við vitum ekki hvernig þetta komst um borð og það er ekki í anda okkar að leita að einhverjum sökudólgum.“ Hugur þeirra væri hjá skipverjunum  því fyrir þá væri þetta mikið áfall.  „Við erum eiginlega hálf snortin yfir því hvað þetta gekk vel.“

Jóhann K. Jóhannsson, samskiptastjóri ríkislögreglustjóra, segir í samtali við fréttastofu að vegna smitanna um borð í Valdimar megi reikna með að tölur morgundagsins yfir fjölda innanlandssmita verði hærri. 

Viljinn.is greindi fyrst frá málinu. 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV