Ofurkraftar að fá fólk til að hlæja

Mynd: RÚV / RÚV

Ofurkraftar að fá fólk til að hlæja

27.09.2020 - 10:20

Höfundar

Vala Kristín Eiríksdóttir leikkona ákvað sjálf að vera algjör draumaunglingur og ná stjórn á umhverfi sínu í öllu því kaosi sem fylgir því að fullorðnast. Stjórnunarþörfin breyttist á tímabili í áráttu og Vala þróaði til dæmis með sér átröskun sem hún hefur sigrast á. Hún er að leika í sínu stærsta hlutverki til þessa í Borgarleikhúsinu um þessar mundir.

Vala Kristín Eiríksdóttir hefur leikið fjölmörg gamanhlutverk á sviði og á skjánum og getið sér gott orð sem grínisti. Vala hefur meðal annars verið meðal handritshöfunda áramótaskaupsins og leikið í og skrifað grínþættina Þær tvær og Venjulegt fólk. Nú er hún að sýna leikritið Oleanna í Borgarleikhúsinu þar sem hún leikur á móti Hilmi Snæ í leikriti eftir David Mamet. Þó nýjast hlutverkið sé dramatískt er hún vönust því að fá fólk til að hlæja. „Það eru ákveðnir ofurkraftar að fá fólk til að hlæja og það getur reynst mér vel að hafa áhrif á aðstæður,“ segir Vala sem í gegnum lífið hefur haft mikla tilhneigingu til að taka sjálf í taumana og reyna að beisla umhverfi sitt. Það hefur hins vegar gengið misvel. „Það kemur á daginn að ég stjórna miklu minna en ég hef oft haldið. Ég hef í raun ekkert með þessa veröld að segja og gera,“ segir hún í samtali við Sigurlaugu Margréti Jónasdóttur á Rás 1.

Þrífur enn heimilið til að ná stjórn á stjórnlausu umhverfi

Vala er yngst í systkinahópnum. Hún á tvo eldri bræður sem henni fannst sem barn vera allt of hamslausir og miklir villingar á unglingsárunum og ákvað hún sjálf sem unglingur að vera með allt sitt á hreinu til að ganga ekki endanlega fram af foreldrunum. Og þannig þróaðist með henni mikil stjórnunarárátta. „Mér fannst eðlilegt að taka meiri ábyrgð á heimilinu en bræður mínir. Svo líður tíminn og ég hugsa bara: Ég er draumaunglingur,“ segir Vala sem eldaði, þreif og sá um húsverk á heimilinu til að létta foreldrum sínum lífið. „Í dag hef ég hærri skítaþröskuld en ég hafði sem krakki en þegar ég tek til eða þríf finnst mér það enn ofboðslega heilandi. Ég held ég sé að gera það til að láta umhverfið beygja sig undir hausinn á mér,“ segir Vala og þar kemur stjórnunaráráttan inn. „Þegar það er mikið kaos í hausnum á mér og til dæmis mikið álag í vinnunni finnst mér gott að þrífa því þá sé ég árangurinn strax.“ Og þegar henni var sagt að hún þurfi ekki ein að bera ábyrgð á öllu og öllum hefur hún gjarnan litið á það sem misskilning. „Ég var bara: Jæja ókei, en hugsaði: Það er það sem þú heldur. Ef þú bara vissir að ég er miðjan í öllu gangverki heimsins,“ segir Vala og hlær.

Í félagslegum aðstæðum hefur henni líka fundist það hennar skylda að halda uppi stemningu og segja brandara þegar það myndast þögn eða verður vandræðagangur. Og stundum er þreytandi að taka á sig þá ábyrgð. „Það er ofboðslega gaman að fá fólk til að hlæja en stundum hefur maður bara ekkert skemmtilegt að segja. Stundum er maður bara þreyttur og asnalegur.“

Mynd með færslu
 Mynd: Vala Kristín Eiríksdóttir - Aðsend
Vala ásamt Birki Blæ kærasta sínum sem er einn handritshöfunda Ráðherrans á RÚV

„Hvaða rugludallur byrjaði með þá hugmynd?“

Margir segja að menntaskólaárin eigi að vera bestu ár lífsins. Því er Vala innilega ósammála. „Hvaða rugludallur byrjaði með þá hugmynd? Ég er fyrst núna að geta varpað öndinni,“ segir hún. Það var erfitt að hennar mati að vera til enda var hún afar leitandi og í sífelldu endurmati á eigin stöðu innan ólíkra hópa. „Og ég vissi ekki hvað ég vildi verða og var skotin í einhverjum sem var ekki skotinn í mér. Allt er svo stórt og það þurfti svo lítið til að kollvarpa manni.“ Og til að ná tökum á þessari óreiðu þróaði Vala með sér áráttu fyrir eigin líkama sem hún vildi hafa fullkomna stjórn á þegar annað í veröldinni lét illa að stjórn. „Ég var á því að vera pottþétt. Góð í skóla, góð í íþróttum, góð í að borða hollt og vera fullkomin. Það var ekki fyrr en seinna sem ég áttaði mig á að ég væri lasin og þyrfti að leita mér hjálpar við átröskun.“

Átröskun lýsir Vala sem lúmskum andskota sem í hennar tilfelli byrjaði sem haldreipi en varð að þráhyggju og einhverju „sem maður gerði til að hafa stjórn, finna til sín, að finna að maður gæti ákveðið eitthvað og sigrað. Svo verður maður sjálfur þræll og hættir að njóta lífsins og vera frjáls því maður getur ekki lengur borðað það sem maður vill borða og gert það sem maður vill gera. Allt í einu er maður ekki lengur þátttakandi í lífinu.“

„Takk fyrir ábendinguna Vala tvö“

Í dag segist hún hafa öðlast heilmikinn bata og átröskunin stjórni ekki lífi hennar. „En það koma hugmyndir. Ég fæ sömu hugmyndir og ég fékk og það fylgir mér. Ef mér gengur illa í vinnunni eða álagið er mikið þá kemur enn þessi hugmynd, að það væri auðveldara ef maður væri grennri.“ Í dag veit hún að það er alls ekki sannleikanum samkvæmt. „Ég hef reynt það og það er ekki auðveldara. Núna heyri ég í hugmyndunum og segi: Vala tvö. Takk fyrir ábendinguna en við ætlum ekki að leysa þetta svona.“

Hún skammaðist sín ekki fyrir að leita sér hjálpar heldur þáði hana fegin, „en það tók mig langan tíma að segja orðið átröskun. Mér fannst eitthvað asnalegt að skilgreina þetta,“ segir Vala sem ákvað í staðinn fyrir að flýja orðið að segja það nógu oft. Og segja það með stolti. „Svo fór ég að segja, ég kemst ekki því ég er að fara til sálfræðings og ég þarf að taka lyf. Það eru lyf og sálfræðingar en ég er enn bara ég. Þetta er hluti af því sem er í gangi í mínu lífi en ég þarf ekki að skilgreinast af þessu öllu.“

Leið fyrst eins og svikara í skólanum

Það stóð ekki alltaf til að verða leikkona og lengi vel ætlaði Vala Kristín að verða læknir. Þegar hún fékk vinnu sem barnfóstra í Galdrakarlinum í Oz var sem það kviknaði á peru í höfðinu á henni. „Takk, litla Vala, kærar þakkir,“ segir Vala við fortíðarsjálf sitt sem lét draumana rætast. „Ég veit ekki hvað kom yfir mann en ég held þetta sé eitt stærsta dæmið um að fylgja innsæinu. Því fyrir utan að þetta starf er ekki til þess fallið að tryggja mann fjárhagslega svo maður gerir þetta ekki af praktískum ástæðum þá er erfitt sem leikari að komast að bæði í námi og vinnu. Í raun mælir allt gegn því að verða leikari en ég ákvað samt að gera það,“ segir Vala. Leiklistarskólinn læknaði Völu svo af þeirri ranghugmynd að manneskja þyrfti að vera guðleg vera til að vera leikari. „Mér fannst leikarar vera fólk sem væri útvalið af guði og leið eins og svikara þegar ég kom í skólann og ég hugsaði: hvenær fatta þau að ég á ekki heima hér?“

Það efast þó fæstir ef nokkur um að Vala hafi átt erindi í leiklistarskólann enda hefur hún verið að gera það mjög gott frá útskrift. Um hlutverk sitt í Oleönnu sem nú er á fjölum Borgaleikhússins segir hún: „Það má alveg segja að þetta sé stærsta hlutverk sem ég hef leikið á sviði.“

Sigurlaug Margrét Jónasdóttir ræddi við Völu Kristínu Eiríksdóttur í Segðu mér á Rás 1. Hér er hægt að hlusta á allan þáttinn og eldri þætti í spilara RÚV.

Tengdar fréttir

Leiklist

Hættulegra að segja þessa sögu eftir #metoo-bylgjuna

Tónlist

Svona er að fara á stefnumót með Eurovision-kynni

Vill biðja fólk afsökunar við sjálfsafgreiðslukassana