Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Nöfn 411 Íslendinga í gagnaleka kínversks fyrirtækis

27.09.2020 - 14:18
epa07884800 A picture released by Xinhua News Agency shows military vehicles rolling past Tiananmen Square during a parade celebrating the 70th Anniversary of the founding of the country on Tiananmen Square in Beijing, China, 01 October 2019. China commemorates the 70th anniversary of the founding of the People's Republic of China on 01 October 2019 with a grand military parade and mass pageant.  EPA-EFE/XINHUA NEWS AGENCY HANDOUT MANDATORY CREDIT, ONE TIME EDITORIAL USE ONLY, NO SALES HANDOUT EDITORIAL USE ONLY/NO SALES
 Mynd: EPA-EFE - XINHUA NEWS AGENCY
Nöfn 411 Íslendinga eru í gagnabanka kínverska fyrirtækisins Zhenhuga Data Information sem fylgist með hegðun fólks á samfélagsmiðlum; meðal annars Facebook, Twitter og TikTok. Samstarfsaðilar fyrirtækisins eru sagðar vera kínverskar varnarmála- og leyniþjónustustofnanir. Fyrirtækið hafnar því að nokkuð óeðlilegt eigi sér stað.

Greint er frá fjölda Íslendinganna í grein á vef Washington Post eftir Önnu-Marie Bradley sem er prófessor við Canterbury-háskólann á Nýja Sjálandi.  Greinin birtist í dag.

Sérfræðingar ekki sammála um mikilvægi upplýsinganna

Gagnagrunnurinn er ekki aðgengilegur á netinu en fjölmiðlar í Bandaríkjunum, Bretlandi og Ástralíu hafa fengið aðgang að honum. Í honum eru meðal annars nöfn stjórnmálamanna, fólks í opinberum störfum og úr heimi menningar og lista. ABC í Ástralíu sagði Kínverja nota gagnagrunninn til að þefa uppi hneykslismál um allan heim. 

Sérfræðingar eru ekki sammála um ágæti og mikilvægi upplýsinganna. Einn þeirra segir í samtali við Washington Post að vel geti verið að eitthvað leynist þarna en við fyrstu sýn séu þetta ekki upplýsingar sem nýtist í hernaði eða leyniþjónstu. 

Ekki spurning um hvað fyrirtækið er að gera heldur af hverju

Talsmaður fyrirtækisins hafnar því í samtali við Guardian að fyrirtækið hafi tengsl við kínversk stjórnvöld og ekki væri rétt að til væri gagnagrunnur með yfir tveimur milljónum nafna.  

Samantha Hoffmann, greinandi hjá áströlsku netfyrirtæki, segir við Guardian að vissulega sé rétt að mörg fyrirtæki safni upplýsingum á þennan hátt. „En það er ekki hvað fyrirtækið er að gera heldur af hverju. Það er mikill munur á upplýsingaöflun vestrænna fyrirtækja og svo kínverskra fyrirtækja sem halda því beinlínis fram að þau séu að leggja sitt af mörkum til þjóðaröryggis.“

Nöfn frá fámennum ríkjum í gagnabankanum

Anna-Marie Bradley segist í grein sinni hafa rannsakað gagnagrunninn, meðal annars eftir landsvæðum. Hún segir það vekja athygli hversu umfangsmiklar upplýsingarnar eru sem fyrirtækið hafi safnað. Og þó sé þetta aðeins lítill hluti gagnasafnsins. Þarna séu nöfn í 200 löndum, líka á svæðum þar sem netsamband er stopult. 

Bradley bendir á í grein sinni að svo virðist sem nöfnin hafi verið valin af kostgæfni. Þarna sé fólk í opinberum stöðum en líka fólk sem hlotið hafi dóma fyrir alvarlega glæpi.  Það komi ekki á óvart að Bandaríkin eigi flest nöfn í gagnabankanum sem Ástralía og Bretland. Það veki samt athygli að nöfn frá mjög fámennum ríkjum séu þarna líka ; meðal annars 411 frá Íslandi, 163 í Færeyjum og 73 á Grænlandi. Þetta megi eflaust rekja til áhuga kínverskra yfirvalda á Norðurslóðum.

Í umfjöllun Washington Post um gagnagrunninn er haft eftir talsmanni Facebook að kínverska fyrirtækið hafi verið bannað frá samfélagsmiðlinum. Það stríði gegn reglum fyrirtækisins að safna persónuupplýsingum á þennan hátt. Talsmaður Twitter sagði ekkert samkomulag í gildi við fyrirtækið og ekki væri heimilt að nota hugbúnað til að safna eða afrita upplýsingar. 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV