Mikilvægt að spegla samtímann með listinni

Mynd: Rúv mynd / Rúv mynd

Mikilvægt að spegla samtímann með listinni

27.09.2020 - 11:13

Höfundar

„Þetta er sýning sem varð til þegar ég sat hér uppi á efri hæðinni í Duus-safnahúsinu og það kom sæmilega stór skjálfti og nokkrar myndir duttu niður af veggjum,“ segir Helga Þórsdóttir, sem nýlega var ráðin safnstjóri Listasafns Reykjanesbæjar. Helga sagði hlustendum Víðsjár frá sýningunni Áfallalandslagi þar sem listamennirnir vinna verk sem vísa beint í kraftinn í náttúrunni. 

Samtíminn fær sitt pláss

„Opnun sýningarinnar átti að vera hluti af Ljósanótt sem síðan varð ekkert af,“ segir Helga Þórsdóttir sem vitanlega vill, sem nýr safnstjóri Listasafns Reykjanesbæjar, ná góðri tengingu við nærumhverfi sitt. Sýningarrými safnsins hefur nýlega tvöfaldast, eftir að byggðasafn bæjarins færði sig til í húsakostinum. „Það er ótrúlega gleðilegt að segja frá því að hér koma til nýir fjögur hundruð fermetrar undir samtímalist í þessu landi. Annað eins hefði verið saga til næsta bæjar,“ segir Helga sigri hrósandi í nýja salnum þar sem vítt er til veggja og hátt til lofts.

Mynd með færslu
 Mynd: Rúv mynd
Listasafn Reykjanesbæjar hefur tvöfaldað sýningarrými sitt

Mikilvægt að styrkja ímyndina

„Ég upplifði það eftir að ég kom hingað að Reykjanesið er stundum talað dálítið niður, en ég vil minna á að að hér eru 25 prósent íbúa sem koma alls staðar að úr heiminum og þetta er bær sem þú átt auðvitað að heimsækja til að fá þér gott að borða, vegna þess að hér eru margir veitingastaðir með mat úr ýmsum áttum. Þetta er líka samfélag sem samþykkir að samtímamyndlistin taki sér pláss, núna á 800 fermetrum, til að spegla samtímann í gegnum listina.“ Helga leitaði til listamanna sem eru vanir að vinna með náttúruöflin og vinna oft á stórum skala. Fyrir valinu urðu Ósk Vilhjálmsdóttir, Rannveig Jónsdóttir, Halldór Ásgeirsson og Gjörningaklúbburinn, en nánast öll verkin voru sérstaklega unnin fyrir sýninguna.

Gjörningaklúbburinn býður meðal annars upp á innsetninguna Dyngju, með vísan bæði í kvennadyngju og jarðfræðina. Halldór Ásgeirsson vinnur áfram með hraun á sinn sérstæða hátt og vísar líka í eldklerkinn séra Jón Steingrímsson. Ósk Vilhjálmsdóttir fær áhorfendur sína með í göngu yfir Reykjanesið í vídeóverki og Rannveig Jónsdóttir vísar í sögu snjóflóða fyrir ofan heimabæ sinn Ísafjörð. 

Í viðtalinu hér að ofan má heyra Helgu Þórsdóttur ræða nánar um sýninguna Áfallalandslag og stækkun Listasafns Reykjanesbæjar. Allar upplýsingar um sýninguna má finna hér.

Tengdar fréttir

Tónlist

Óendanleg vögguvísa Ragnars flutt í kirkju í Mílanó

Myndlist

Við ætlum að hafa það skemmtilegt

Myndlist

Þeir komu með leikgleði í myndlistina