Hallgrímur Mar með þrennu gegn Gróttu

Mynd með færslu
 Mynd: Mummi Lú - RÚV

Hallgrímur Mar með þrennu gegn Gróttu

27.09.2020 - 19:15
Staða KA í deildinni hefur batnað mikið að undanförnu en þeir fjarlægðust fallsvæðið enn frekar í dag með góðum útisigri gegn Gróttu þar sem Hallgrímur Mar Steingrímsson skoraði þrennu.

Fyrir leik var ljóst að KA kæmist í góða stöðu næðu þeir að taka öll þrjú stigin í dag á meðan að Grótta gæti haldið sér á lífi með sigri. Leikurinn fór nokkuð rólega af stað en á 17. mínútu urðu KA-menn fyrir áfalli þegar að Nökkvi Þeyr fór meiddur útaf og að sögn Arnars Grétarssonar, þjálfara KA, er búist við að hann verði frá í langan tíma. 

Hallgrímur Mar opnaði markareikning sinn í dag með glæsilegu marki á 26. mínútu þegar hann þrumaði boltanum í netið en vörn Gróttu leit ekki nógu vel út í markinu. Á næstu mínútum fékk KA fjölmörg færi til að skora en það var ekki fyrr en í uppbótartíma fyrri hálfleiks sem Hallgrímur Mar skoraði annað mark sitt. Staðan var því 2 - 0 í hálfleik og leikmenn Gróttu heppnir að vera ekki fleiri mörkum undir. 

Á 69. mínútu fékk Grótta víti og brugðust leikmenn og þjálfarahópur KA illa við og töldu Karl Friðleifur hafi dýft sér. Karl fór sjálfur á punktinn og skroraði. Stuttu síðar gerði Steinþór Freyr Þorsteinsson nánast út um leikinn með þriðja marki KA. Hallgrímur Mar fullkomnaði svo þrennu sína einni mínútu fyrir leikslok með marki úr vítaspyrnu. Í uppbótartíma skoraði Kieran McGrath gott mark fyrir Gróttu þar sem hann stökk manna hæst í teignum eftir hornspyrnu. Lokatölur á Vivaldi-vellinum í kvöld voru því 2 - 4 fyrir KA. 

Með sigrinum er KA með 19 stig og því ellefu stigum fyrir ofan fallsæti. Staða Gróttu er hinsvegar enn slæm en liðið er í 11. sæti deildarinnar með átta stig og er liðið átta stigum frá öruggu sæti í deildinni.