Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Guðni í kerfisleysu: „Þú ert númer 55 í röðinni“

27.09.2020 - 12:49
Mynd með færslu
 Mynd: Guðni Nikulásson - RÚV/Rúnar Snær Reynisson
78 ára gamall maður á Héraði óttast að fá gláku og hefur í heilt ár reynt að komast til augnlæknis án árangurs. Hann gagnrýnir að þurfa að fljúga til Reykjavíkur á COVID-tímum til að fá augnskoðun. Ríkið gæti nýtt fjármuni betur og bætt þjónustu úti á landi með því að skipuleggja ferðir sérfræðilækna, frekar en að fljúga með sjúklinga til Reykjavíkur. Framkvæmdastjóri lækninga hjá HSA segir að kerfið tryggi ekki gott aðgengi að sérfræðingum eins og augnlæknum á Austurlandi.

Guðni Nikulásson býr í Gróargerði í gamla Vallarhreppi innan við Egilsstaði. Strax í fyrra fór hann að reyna að fá tíma hjá augnlækni sem kom austur en þá var upppantað. Hann fékk tíma hjá lækni í Reykjavík í mars en hætti við ferðalagið og afpantaði vegna COVID. Nýverið var loks auglýst að augnlæknir ætlaði að koma austur á land og Guðni fór að gera sér vonir.

„Ég ætlaði nú að hafa fyrirvarann góðan og byrjaði að hringja korteri áður en að átti að byrja að panta. Þá heyri ég svona lágan tón á bakvið.  Þú ert númer mig minnir 55 í röðinni. Og síðast þegar ég hringi svona cirka tíu mínútur fyrir tíu, þá sagði bara símsvari mjög skýrt: Allt upppantað hjá augnlækninum,“ segir Guðni.

Ríkið flytur Austurland til lækna en ekki lækna til Austurlands

Fjölmargir eru í sömu stöðu og Guðni, þurfa að hitta augnlækni, kvensjúkdómalækni, geðlækni, barnalækni eða öldrunarlækni svo dæmi séu nefnd. Það hefur ekki staðið á ríkinu greiða flugferðir til slíkra lækna í Reykjavík en spyrja má hvort þeim peningum væri ekki betur varið í að hvetja sérfræðinga til að fara oftar út í heilbrigðisumdæmin. Vandamálið er að ekkert í samningum Sjúkratrygginga við heilbrigðisstéttir, hvetur þær eða skyldar til að veita þjónustu úti á landi.

Getur kannski reynt aftur í febrúar

Guðna er illa við að fljúga til Reykjavíkur núna vegna Covid. „Í minni ætt er gláka svo ég þarf í raun að láta fylgjast með augunum. Kannski kemur augnlæknir jú í febrúar. En það er ekkert sem bendir til þess að ég nái frekar inn þá,“ segir Guðni.

Geta farið á mis við nauðsynlega þjónustu

Pétur Heimisson, framkvæmdastjóri lækninga hjá Heilbrigðisstofnun Austurlands, segir að tölur sýni að íbúar Austurlands nýti sérfræðiþjónustu lækna þrisvar sinnum sjaldnar en íbúar höfuðborgarsvæðisins. Hann bætir við að mögulega felist í því sú hætta að þeir fari á mis við nauðsynlega eða mikilvæga þjónustu.

Koma ef þeir elska 

Péur segir einnig að það sé snúið að fá sérfræðinga í læknisferðir út á land og byggist ekki síst á vinatengslum, fjölskyldutengslum og átthagatengslum einstakra lækna. Ekkert í kerfinu tryggi jafnan aðgang að þjónustu. Til að leysa vanda Guðna og fleiri slíkra þurfi stjórnvöld að skilgreina hvað eigi að vera nærþjónusta veitt reglulega í öllum heilbrigðisumdæmum.