Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Frjálsar ástir á hjara veraldar

Mynd: commons / wikicommons

Frjálsar ástir á hjara veraldar

27.09.2020 - 15:33

Höfundar

Þorpið Cadaqués hefur lengi heillað listamenn í fegurð sinni og einangrun. Þegar Salvador Dalí bauð súrrealistum frá París í heimsókn sumarið 1929 urðu til órjúfanleg bönd sem fæddu af sér ógrynni myndlistar, ljóða og ástarbréfa.

Salvador Dalí kallaði Cadaqués fegursta þorp í heimi en hann eyddi þar hverju sumri í faðmi fjölskyldu sinnar frá því að hann var lítill drengur. Fjölskyldan var líkt og fjölskylda kafbátahönnuðarins, frá Figueres. Dalí fór á unglingsárum í listnám til Madridar en hugurinn leitaði alltaf aftur í litla þorpið þangað sem hann hélt áfram að venja komur sínar, í þetta sinn með vinum úr listalífi stórborgarinnar, fóru þar fremstir í flokki Lorca og Bunuel, sem einnig heilluðust af þorpinu. Að lokum settist hann svo að í Port Lligat, í næstu vík við Cadaqués þar sem nokkrir kofar sjómanna stóðu við litla bryggju.

Mynd með færslu
Fjölskylda Dalí í Cadaqués í upphafi 20.aldar Mynd: commons - wikicommons
Fjölskylda Dalí í Cadaqués í upphafi 20.aldar

Dalí festi kaup á einum þessara kofa, gerði hann að heimili sínu og bjó þar til æviloka. Litli sjómannskofinn varð með tímanum að ævintýralegu húsi, þar sem hvert rýmið bættist ofan á annað á organískan hátt, og innanstokksmunirnir fábrotið handverk að hætti heimamanna í bland við súrrealíska hluti alls staðar að úr heiminum. Í garðinn bættist svo við sundlaug þar sem kvikmyndastjörnur, listamenn og tónlistarfólk baðaði sig í löngu og nær samfelldu partýi eftir að Dalí varð heimsfrægur milljónamæringur.

Mynd með færslu
 Mynd: commons - wikicommons
Félagarnir Dalí og Lorca

En það var síðar. Fyrst átti Dalí eftir að kynnast konunni sem var helsti drifkrafturinn á bak við verkin sem fæddust í þessu ævintýralega þorpi sem virðist í einangrun sinni vera vin andagiftarinnar við endimörk alheimsins. Þorpinu þar sem Duchamp teflir skák við sjóinn og þar sjómenn sofa draumlausum svefni í sandinum, því áttaviti þeirra er rós sem rís úr hafinu, svo vitnað sé í sjálfan Lorca.

Mynd með færslu
 Mynd: commons - wikicommons
Dalí og Gala á rómantískri stundu.

Það er kannski ekkert skrítið að listamenn hafi dregist að þorpinu. Og kannski er ekki skrítið að innsta kjarna súrrealistanna í París hafi fundist staðurinn vera á einhvern hátt göldróttur. Óvenju hrá fegurð, tímaleysi, einfalt líf og einangrun í bland við góðan mat, gott veður og tæran sjó ættu nú að vera nægt aðdráttarafl fyrir hvern sem er, en þegar ungur Dalí bauð ljóðskáldinu og einum þekktasta bóhem Parísar, Paul Eluard, í heimsókn sumarið 1929 var ekki aftur snúið og vinahópurinn frá París blandaðist Cadaqués böndum sem áttu eftir að gefa af sér ógrynni myndlistarverka, ljóða og ástarbréfa.

Fjallað var um þorpið Cadaqués í Víðsjá og hægt er að hlusta á umfjöllunina í heild sinni í spilaranum hér að ofan.

Tengdar fréttir

Pistlar

Um stórar byltingar í litlu þorpi

Myndlist

Gleymdar gyðjur súrrealismans

Hönnun

Borgir á tímum farsótta