Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Djammferðinni lauk með sekt og sóttkví í heimalandinu

Mynd með færslu
 Mynd: Bjarni Rúnarsson - RÚV
Ferðamennirnir fjórir sem voru handteknir í miðborg Reykjavíkur vegna brots á sóttkví þurftu hver og einn að reiða fram 250 þúsund krónur í sekt vegna brotanna. Til að bæta gráu ofan á svart þurftu þeir allir að fara í 14 daga sóttkví þegar þeir sneru aftur heim í dag.

Ásgeir Þór Ásgeirsson, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, vildi í samtali við fréttastofu ekki gefa upp þjóðerni mannanna.  

Hann sagðist þó vita að þær reglur giltu í heimalandi þeirra að fólk sem kæmi frá Íslandi þyrfti að fara í 14 daga sóttkví. Örfáar ferðir voru frá Keflavíkurflugvelli í dag samkvæmt vef Isavia og þær sem koma einna helst til greina voru annars vegar til Bretlands og hins vegar Danmerkur.

Ásgeir segir að svo virðist sem fólkið hafi ekki ætlað að vera í sóttkví og því hafi athæfi þeirra verið metið sem ásetningsbrot. Það hafi verið rætt við fólkið þegar það komu til landsins og og ástæða hafi þótt til að fylgja því eftir.

Þegar það var gert hafi það styrkt þá skoðun lögreglunnar að það hafi ætlað að hunsa allar reglur.  Við eftirlit kom svo í ljós að fólkið var ekki á þeim stað sem það ætlaði að vera á og var því farið að leita að þeim.  Þrennt fannst á veitingahúsi en einn reyndi að stofna til slagsmála á Laugavegi.

Ásgeir segir að fólkið hafi verið handtekið og málið síðan klárað með því að ferðamennirnir undirgengust sektargreiðslu upp á 250 þúsund krónur hver. Þegar þessu var lokið var það sent aftur á sína gististaði en það átti bókað flug frá landinu í dag.

Ásgeir segir að eitthvað hafi borið á því að ferðamenn ætli sér ekki að virða þær reglur sem gilda á Íslandi. Veitingamann hafi oft leyst þetta sjálfir með því að vísa fólki út þegar það mæti á staðinn með ferðatöskur í eftirdragi. „Auðvitað er í þessu eins og öllu að það eru alltaf líkur á því að reglur séu brotnar.“

Hugmyndir ferðamannanna fjögurra um dæmigerðan helgarpakka á Íslandi hefði mögulega gengið fyrir níu mánuðum og þótt góð hugmynd þá. „En ekki í dag.“