Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Covid-sjúklingum með alvarleg einkenni fjölgar

27.09.2020 - 19:25
Mynd með færslu
 Mynd:
Sjúklingum með alvarleg einkenni af völdum Covid-19 fer fjölgandi hér á landi. Fjórir liggja nú á spítala, þar af einn á gjörgæslu og í öndunarvél. Yfirlæknir á Landspítalanum segir að álagið hafi aukist í síðustu viku samhliða fjölgun smita

 

Tuttugu greindust með kórónuveirusmit í gær en þar af voru 12 í sóttkví. Rúmlega tvö hundruð smit hafa greinst á síðustu sjö dögum og nú eru 455 í einangrun.

Mun færri sýni voru tekin í gær miðað við dagana þar á undan.

Tveir voru lagðir inn á Landspítalann í gær vegna Covid-19. Alls eru því fjórir á spítala og þar af einn á gjörgæslu í öndunarvél. Sá er á sextugsaldri.

Runólfur Pálsson yfirlæknir á Covid-göngudeild Landspítalans segir að starfsfólki á deildinni hafi verið fjölgað.

„Álagið hefur verið að aukast að undanförnu. Sérstaklega síðustu viku og það er í takt við aukinn fjölda smita sem hefur verið að greinast í samfélaginu. Við vissum það fyrirfram að með auknum fjölda smitaðra einstaklinga þá myndi ákveðinn fjöldi veikjast jafnvel alvarlega,“ Runólfur.

Ekki liggur fyrir hvort sóttvarnaráðstafanir verði hertar. Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segir að þróun faraldursins muni ráða úrslitum þar um en hann mun væntanlega skila tillögum til heilbrigðisráðherra í vikunni.

Runólfur segir að spítalinn sé betur í stakk búinn til að takast á við sjúkdóminn enda hafi mikil þekking og reynsla orðið til í fyrri bylgjum faraldursins.

„Reynslan af fyrstu bylgjunni er mjög dýrmæt. Hún var mjög umfangsmikil og það var gripið til stórra ráðstafana hér á sjúkrahúsinu, innan heilbrigðisþjónustunnar og almennt í samfélaginu. Auðvitað höfum við lært mikið af því á Covid-göngudeildinni. Við höfum mjög þjálfað starfsfólk sem er þrautreynt við að fást við þetta viðfangsefni og það gefst vel þegar þessi svokallaða þriðja bylgja er í gangi,“ segir Runólfur.