Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Banna pólitísk skilaboð í Formúlu 1

epaselect epa08666744 Winner British Formula One driver Lewis Hamilton of Mercedes-AMG Petronas reacts after the Formula One Grand Prix of Tuscany at the race track in Mugello, Italy 13 September 2020.  EPA-EFE/Bryn Lennon / Pool
 Mynd: EPA

Banna pólitísk skilaboð í Formúlu 1

27.09.2020 - 09:33
Ökuþórum í Formúlu 1 hefur verið bannað að klæðast fatnaði með ákveðnum slagorðum eða pólitískum skilaboðum á meðan þeir standa á verðlaunapalli eða fara í viðtöl eftir keppnir.

Ákvörðunin er tekin vegna skilaboða á bol sem Lewis Hamilton klæddist þegar hann fagnaði sigri í Tuscan kappakstrinum á Ítalíu. Hamilton var þá í bol sem hvatti til þess að lögreglumennirnir sem myrtu Breonna Taylor yrðu handteknir. Samkvæmt nýjum reglum FIA, alþjóða akstursíþróttasambandinu, verða ökumenn að klæðast akstursgalla frá toppi til táar og gilda reglurnar á meðan þeir eru á verðlaunapallinum og fara í viðtöl eftir keppni. Reglurnar ná einnig til andslitsgríma sem nú verða að vera einlitar eða merktar liði ökumanna. 

Þessar nýju reglur koma ekki á óvart en viðræður hófust á milli FIA, Hamilton og Mercedes í kjölfar sigurs hans í síðustu keppni en ekki þótti við hæfi að refsa Hamilton sérstaklega þar sem hann hafði ekki brotið neinar sérstakar reglur, þrátt fyrir að pólitísk skilaboð séu bönnuð á verðlaunapallinum. 

Í viðtölum fyrir kappaksturinn í Rússlandi sem fer fram um helgina sagði Hamilton að hann byggist við nýjum reglum fyrir keppnina. „Ég gerði eitthvað sem hefur aldrei áður verið gert í Formúlu 1 svo augljóslega verður reynt að koma í veg fyrir að þetta gerist aftur”, sagði Hamilton. Hann sér þó ekki eftir athæfinu. „Ég sé ekki eftir neinu, ég fylgi hjarta mínu og geri það sem ég tel vera rétt.”

Kappaksturinn í Sochi í Rússlandi fer fram í dag og nái Lewis Hamilton að sigra í dag jafnar hann met Michael Schumacher sem sigraði 91 kappakstur í Formúlu 1 á ferli sínum.