Auðveldur sigur Breiðabliks gegn ÍBV

Mynd með færslu
 Mynd: Mummi Lú

Auðveldur sigur Breiðabliks gegn ÍBV

27.09.2020 - 17:23
Einn leikur fór fram í efstu deild kvenna í fótbolta í dag. Breiðablik mætti ÍBV í Kópavogi í leik sem átti upphaflega að fara fram í gær. Breiðablik átti ekki í neinum vandræðum og skoraði átta mörk í dag án þess að fá á sig mark.

Það tók Breiðablik aðeins nokkrar sekúndur að skora fyrsta mark leiksins og þar var Sveindís Jane Jónsdóttir á ferðinni eftir góða fyrirgjöf frá Öglu Maríu. Agla María sá svo sjálf um að skora annað mark Breiðabliks í dag eftir 18 mínútna leik. Alexandra Jóhannsdóttir skoraði þriðja mark Breiðabliks á 30. mínútu með því að vippa boltanum laglega yfir Auði Sveinbjörnsdóttur Scheving í marki ÍBV. 

Áður en flautað var til hálfleiks áttu Blikar frábærar fimm mínútur þar sem þær skoruðu þrjú mörk og breyttu stöðunni í 6 - 0 áður en flautað var til hálfleiks. Rakel Hönnudóttir skoraði fjórða mark Breiðabliks eftir hornspyrnu Öglu Maríu, Karólína Lea Vilhjálmsdóttir skoraði fimmta markið eftir að hafa leikið laglega á tvö varnarmenn ÍBV og Helena Jónsdóttir skoraði sjálfsmark sem kom Breiðablik í 6 - 0.

Seinni hálfleikurinn var talsvert rólegri en sá fyrri. Sveindís Jane skoraði sitt annað mark á 54. mínútu og lokamark leiksins kom á 68. mínútu þegar að Agla María skoraði annað mark sitt í dag og tryggði Breiðablik auðveldan 8 - 0 sigur. 

Í næstu umferð mætast Valur og Breiðablik og er líklegt sigurliðið í þeim leik standi uppi sem Íslandsmeistari. En leikurinn fer fram laugardaginn 3. október. Breiðablik er í öðru sæti deildarinnar með 39 stig, einu stigi minna en Valur en Breiðablik á hinsvegar einn leik til góða og er liðið því í kjörstöðu.