Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Atvinnuleysi eitur í beinum Íslendinga

27.09.2020 - 14:13
Mynd: RÚV / RÚV
Framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins segist vonsvikinn yfir því að samtal við verkalýðshreyfinguna hafi ekki leitt til niðurstöðu um Lífskjarasamniginn. Aðildafyrirtæki SA kjósa um mögulega riftun samningsins á morgun

Samtök atvinnulífsins og Alþýðusamband Íslands greinir á um hvort forsendur lífskjarasamningsins séu brostnar eða ekki. SA líta svo á að forsendur hafi ekki haldið í ljósi efnahagsáhrifa kórónuveirufaraldursins. ASÍ er því ósammála.

Aðildafyrirtæki SA greiða atkvæði á morgun um hvort segja beri samningnum upp. Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri SA, var gestur Silfursins í morgun. Hann segist vonsvikinn að samtal við verkalýðshreyfinguna hafi ekki borið árangur. Þremur tillögum SA hafi öllum verið hafnað. 

„Það versta sem við gerum í þessari stöðu er að gera ekki neitt. Að stinga höfðinu í sandinn og segja: Heyrðu hér verða bara allir að standa við sitt. Vegna þess að það sem gerist er að sama hvort að samningar halda eða ekki, þá verðum við að forðast að atvinnuleysi haldi áfram að aukast. Mín skoðun er og hefur verið í mjög langan tíma að atvinnuleysi sé algjört eitur í beinum Íslendinga, og við og verkalýðshreyfingin undanfarin 20 ár höfum alltaf forgangsraðað því þannig að halda sem flestum í vinnu jafnvel þótt að það þýði að draga úr launahækkunum fyrir þá sem eru í vinnu, en nú er búið að snúa þessu við, og verkalýðshreyfingin vill tryggja launahækkanir þeirra sem eru í vinnu jafnvel þó að það séu 20 þúsund manns sem ekki hafa vinnu,“  segir Halldór Benjamín.

Tillögur SA eru þríþættar:

1.Að fresta ákvörðunartöku um Lífskjarasamninginn um 2 mánuði,

2. Að bíða og sjá hver efnahagsáhrif kórónuveirunnar verða en halda lífskjarasamningi í gildi .

3. Lækka mótframlag atvinnurekenda í lífeyrissjóð tímabundið.

„Þegar mótaðilinn segir við ætlum ekki að ræða þetta við þig. Þetta eru atriði sem þurfa að þroskast í einhverskonar samtali en þegar mótaðilinn okkar hafnar því að eiga samtalið þá erum við í dálitlum vanda“ segir Halldór Benjamín.

Stjórnvöld hafa um helgina rætt við aðila vinnumarkaðarins. Búist að deiluaðilar eigi fund síðar í dag með formönnum ríkisstjórnarflokkanna þar sem farið verður yfir stöðuna.