Vill hjálpa FH og fjölskyldan vildi snúa heim

Mynd með færslu
 Mynd: Instagram/mattivilla

Vill hjálpa FH og fjölskyldan vildi snúa heim

26.09.2020 - 13:16
Matthías Vilhjálmsson snýr aftur í raðir FH á næsta tímabili og hefur hann skrifað undir þriggja ára samning við liðið sem tekur gildi þann 1. janúar næstkomandi. Matthías segir fjölskylduna hafa viljað snúa aftur til Íslands og hann vill hjálpa sínu gamla félagi.

Norska liðið Vålerenga birti viðtal við Matthías á heimasíðu sinni þar sem hann fer yfir félagsskipti sín. Þar segir Matthías að fjölskyldan hafi viljað snúa aftur heim til Íslands þegar honum bauðst að hjálpa sínu gamla liði á Íslandi. Hann segist þó hafa notið þess að spila í Noregi síðustu ár.

Matthías gekk til liðs við Start árið 2012 og hefur spilað allar götur síðan í Noregi, frá Start fór hann til Rosenborg þar sem hann naut mikillar velgengni með liðinu og varð Noregsmeistari með þeim fjórum sinnum. Hann gekk svo til liðs við Vålerenga árið 2019 og er á sínu öðru tímabili með liðinu.

Matthías klárar tímabilið með Vålerenga og lofar stuðningsmönnum að hann leggi sig allan fram í síðustu leikjunum. „Mig langar virkilega að enda atvinnumannaferil minn á góðan hátt. Ég mun gefa allt fyrir Vålerenga, eins og venjulega, segir Matthías. 

Vålerenga hefur gengið ágætlega í norsku deildinni á þessu tímabili og liðið er í 5. sæti deildarinnar eftir 18 umferðir, aðeins tveimur stigum á eftir Molde sem er í 2. sæti.