Verður snöggur að skila tillögum um harðari aðgerðir

Mynd með færslu
 Mynd: Almannavarnir
Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir, segist verða snöggur að skila tillögum um harðari aðgerðir til heilbrigðisráðherra ef á þarf að halda. „En það er ekkert gaman að fara í harðari aðgerðir því það mun setja mikið úr skorðum ef við förum í aðgerðir eins og í vetur.“

38 greindust með innanlandssmit í gær. Rúmlega helmingur var í sóttkví. Alls eru nú 435 í einangrun, sá elsti er á níræðisaldri, sá yngsti innan við eins árs. Tveir eru á sjúkrahúsi. Nýgengi smita á hverja hundrað þúsund íbúa síðustu tvær vikur er nú hvergi hærra á Norðurlöndum en á Íslandi eða 113,2 smit.

Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn hjá ríkislögreglustjóra, segir að þau hafi af þessu verulegar áhyggjur. „Þegar við fórum í það að hvetja fólk til að vera minna á ferðinni og vinna meira heima þá vonuðumst við til að það hefði meiri áhrif. Þannig að tölur morgunsins voru vonbrigði.“

Nýgengi smita á hverja hundrað þúsund íbúa er nú hvergi hærra á Norðurlöndum en á Íslandi eða rúmlega 113.  Aðeins Danmörk er með sambærilega tölu, samkvæmt yfirliti á vef sóttvarnastofnunar Evrópu.  Mörg ríki horfa til þessarar tölur þegar þau ákveða aðgerðir á landamærum. Til að mynda þurfa Íslendingar nú að fara í sóttkví við komuna til Danmerkur, Noregs, Finnlands og Bretlands. Öll lönd eru metin áhættusvæði hér á landi. 

Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir, segir það út fyrir sig ágætt að faraldurinn sé í línulegum vexti en ekki veldisvexti eins og væri ef ekkert hefði verið gert.  „En það er bara spurning hvað gerist, hvort það taki svona langan tíma að ná honum niður eða hvort hann fari að rjúka upp í veldisvöxt. Það er kannski það sem við óttumst meira.“

Hann segir fjölda smita ekki ráða úrslitum hvort aðgerðir verði hertar enn frekar heldur sé þar líka horft til þess hversu margir séu að veikjast alvarlega. „Það sem við erum líka að horfa á eru veikindi starfsmanna á Landspítalanum og hversu margir eru í einangrun og sóttkví. Það eru því margir þættir sem við erum að skoða sem mæla með því hvort farið verði í harðari aðgerðir eða ekki.“

Þórólfur tekur fram að harðari aðgerðir séu til skoðunar til að ná faraldrinum niður. „En það er ekkert gaman að fara í harðari aðgerðir heldur því það mun þá setja mikið úr skorðum ef gerum eins og við gerðum í vetur.“ Hann verði þó snöggur að skila tillögum um slíkt ef á þurfi að halda. 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi