Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Þrír handteknir eftir að hafa ekið á kyrrstæðan bíl

26.09.2020 - 10:17
Mynd með færslu
 Mynd: Þór Ægisson - RÚV
Lögreglan á Suðurnesjum handtók þrjá menn í nótt vegna áreksturs. Bílnum var ekið á tvo bíla á Hringbraut í Reykjanesbæ áður en hann valt. Einn reyndi að flýja af vettvangi. Grunur er um að ökumaðurinn hafi verið ölvaður.

Víkurfréttir greindu fyrst frá árekstrinum. Þar má sjá myndir af vettvangi og aðgerðum lögreglu. Svo virðist sem bílnum hafi verið ekið norður Hringbraut á miklum hraða. Á hringtorgi á gatnamótum Faxabrautar og Hringbrautar tók bíllinn mikið stökk og lenti á skutbíl sem stóð við Hringbraut. Við það valt bíllinn og skemmdi annan kyrrstæðan bíl. 

Vitni sáu tvo menn skríða úr flakinu og annan þeirra leggja á flótta af vettvangi. Íbúar í grennd við slysstað lýstu árekstrinum sem mjög hörðum og að mikill hávaði hafi orðið við áreksturinn, líkt og sprenging hefði orðið. 

Sigurbergur Theodórsson, aðalvarstjóri hjá lögreglunni á Suðurnesjum segir í samtali við fréttastofu að þrír séu í haldi og að grunur sé um að ökumaður hafi verið ölvaður við aksturinn.Þeir sem eru í haldi verða yfirheyrðir síðar í dag. Málið er í rannsókn.

 

bjarnir's picture
Bjarni Rúnarsson
Fréttastofa RÚV