Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Snarpir skjálftar nærri Grímsey í nótt

26.09.2020 - 04:16
Mynd með færslu
 Mynd: Akureyrarbær
Tveir jarðskjálftar yfir fjórum að stærð urðu um tólf kílómetrum norðaustur af Grímsey í nótt. Laust fyrir klukkan þrjú mældist skjálfti af stærðinni 4,3. Skömmu síðar varð eftiskjálfti af stærðinni 3,4 á sama stað. Um klukkan hálf fjögur varð svo skjálfti sem mældist 4,2 að stærð á svipuðum slóðum, og um tveimur mínútum síðar fylgdi skjálfti af stærðinni 4,3.

Fjöldi smærri skjálfta hefur mælst, þeirra stærstir 3,5 og 3,4. Veðurstofunni hefur borist fjöldi tilkynninga um að stærstu skjálftanna hafi orðið vart víða á Norðurlandi.

Skjálftavirkni hófst á þessu svæði um hádegi í gær. Þá varð skjálfti sem mældist 3,7 auk minni eftirskjálfta. Veðurstofan bendir fólki sem býr á þekktum skjálftasvæðum á að kynna sér varnir og viðbúnað vegna jarðskjálfta. 

Að sögn Einars Bessa Gestssonar, náttúruvárserfræðings hjá Veðurstofu Íslands, virðist óróinn nú svipaður þeim sem var 2018. Þá mældist stærsti skjálftinn 5,2 að stærð, og nokkrir yfir fjórum. Hann segir ekki útilokað að það verði skjálfti af þeirri stærðargráðu í þessari hrinu. Dæmi er um slíkt bæði frá árinu 2018 og 2013 á þessum slóðum.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV